Þjóðarleiðtogar fordæma aðgerðir Rússa

Þjóðarleiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og Frakklands hafa allir fordæmt ákvörðun …
Þjóðarleiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og Frakklands hafa allir fordæmt ákvörðun Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Samsett mynd

Leiðtogar Vesturlanda hafa brugðist skjótt við fyrirskipaðri innrás Rússa í Úkraínu og kalla nú eftir því að hörðum refsiaðgerðum verði beitt.

Vladimír Pútín forseti Rússlands skrifaði undir viðurkenningu á sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu í kvöld, en aðskilnaðarsinnar hafa verið studdir leynt og ljóst af rússneskum stjórnvöldum frá því þau réðust þangað inn árið 2014.

Í kjölfar viðurkenningarinnar skipaði hann svo her sínum að fara yfir landamæri ríkjanna tveggja, til að „halda frið“ á svæðunum.

Aðgerðirnar „skýrt brot“ á friðarsáttmálanum

Þjóðarleiðtogar Frakklands, Þýskalands og Bandaríkjanna segja aðgerðir Pútíns „skýrt brot“ á friðarsáttmálanum sem Rússar undirrituðu í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk, árið 2014.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands og Joe Biden Bandaríkjaforseti voru sammála um að bregðast við aðgerðum Rússa. Þetta kom fram í yfirlýsingu Scholz sem birt var í kjölfar samtals milli leiðtoganna þriggja.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að aðgerðir Pútíns krefðust „tafarlausra …
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að aðgerðir Pútíns krefðust „tafarlausra og ákveðinna viðbragða“. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna tísti því svo að aðgerðir Pútíns krefjist „tafarlausra og ákveðinna viðbragða“, og að Bandaríkin muni „bregðast við á viðeigandi hátt“, í samráði við bandamenn sína.

Bandaríkin tilkynntu svo að þau myndu beita Rússa efnahagslegum refsiaðgerðum og vöruðu jafnframt við því að þau væru tilbúnir að beita enn harðari aðgerðum, telji þau þörf á því.

Í ósamræmi við meginreglur sáttmála SÞ

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði ákvörðun Rússa vera „brot á landhelgi og fullveldi Úkraínu, og í ósamræmi við meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna“.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, sem var enn að vonast eftir diplómatískri lausn á málinu í dag, kallaði eftir því að Evrópusambandið beitti Rússa markvissum refsiaðgerðum.

„Hann hefur óskað eftir neyðarfundi með öryggismálanefnd Sameinuðu þjóðanna og samþykkt markvissar refsiaðgerðir,“ sagði í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði ákvörðun Rússa vera „brot …
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði ákvörðun Rússa vera „brot á landhelgi og fullveldi Úkraínu, og í ósamræmi við meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna“. AFP

„Hörðum refsiaðgerðum verður beitt“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi einnig aðgerðir Pútíns og sagði þær „stórfellt brot á fullveldi og friðhelgi Úkraínu“.

„Hörðum refsiaðgerðum verður beitt um leið og Rússar stíga svo mikið sem litlu tá inn í Úkraínu,“ bætti hann við.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði Moskvu vera að brjóta á friðarsáttmálanum sem Rússar skrifuðu undir í Minsk árið 2014.

„Með ákvörðun sinni er Rússland að brjóta öll loforð sín á alþjóðavettvangi,“ sagði hún.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði ákvörðun Pútíns „grafa enn frekar undan fullveldi og landhelgi Úkraínu, draga úr möguleikanum á að deilan verði leyst“, og að hún „brjóti í bága við samningana sem m.a. Rússar undirrituðu í Minsk“.

„Moskva heldur áfram að ýta undir átökin í austurhluta Úkraínu með því að veita aðskilnaðarsinnum fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning. Moskva er líka að reyna að setja á svið aðstæður sem eiga að gefa þeim ástæðu til þess að gera innrás inn í Úkraínu, enn einu sinni,“ bætti hann við.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði ákvörðun Pútíns „grafa enn frekar …
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði ákvörðun Pútíns „grafa enn frekar undan fullveldi og landhelgi Úkraínu“. AFP

Útlendingar hvattir til að yfirgefa landið

Ursula von der Leyen og Charles Michel, leiðtogar Evrópusambandsins, tístu sama tístinu þar sem þau segja aðgerðir Pútíns vera „skýlaus brot á alþjóðalögum“. Þá bættu þau því við að „ESB og samstarfsaðilar sambandsins muni taka stöðu með Úkraínu og í sameiningu bregðast við af staðfestu“.

Aleksandar Vucic forseti Serbíu kveðst óttast að átökin í Úkraínu „gætu breiðst út í aðra hluta Evrópu og um heiminn, sér í lagi yfir á Vestur-Balkanskaga“.

Utanríkisráðuneytið í Rúmeníu hefur hvatt alla Rúmena sem eru staðsettir í Úkraínu um að yfirgefa landið og það strax. Þá lýsti Rúmenía yfir stuðningi við Úkraínu.

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, segist óttast að átök breiðist út …
Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, segist óttast að átök breiðist út í álfunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert