Úkraínumenn vilja „harðar refsiaðgerðir“

Dmytro Kuleba á blaðamannafundi í gær.
Dmytro Kuleba á blaðamannafundi í gær. AFP

Úkraínsk stjórnvöld hafa hvatt samherja sína á Vesturlöndum til að beita Rússa „hörðum refsiaðgerðum“ eftir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi sjálfstæði tveggja svæða í Úkraínu og ákvað að senda þangað inn hersveitir.

Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa öll tilkynnt að Rússar verði beittir viðskiptaþvingunum. Hlutabréf í Evrópu hafa fallið og olíuverð hækkað í kjölfarið.

Talið er að rússneskar hersveitir séu þegar komnar inn í Donetsk og Lugansk í austurhluta Úkraínu eftir að Pútín fyrirskipaði her sínum að sinna „friðargæslu“ á svæðum aðskilnaðarsinna.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti
Vladimir Pútín Rússlandsforseti AFP

Í yfirlýsingu sem var gefin út vegna heimsóknar Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, til Washington, sagðist hann vera í samstarfi með vestrænum vinaþjóðum landsins „við að koma á hörðum refsiaðgerðum gegn Rússlandi“.

„Rússar eru að reyna að ögra Úkraínu. Þess í stað þá sýnir Úkraína visku sína og þrautseigju til að koma í veg fyrir vopnuð átök,“ bætti hann við.

Paolo Gentiloni.
Paolo Gentiloni. AFP

Stóraukin efnahagsleg óvissa

Paolo Gentiloni, efnahagsstjóri í framkvæmdastjórn ESB, sagði að með því að viðurkenna sjálfstæði svæða í Úkraínu hafi Rússar „stórlega aukið“ efnahagslega óvissu í Evrópusambandinu.

„Óvissan heldur áfram. Það að Rússar viðurkenni sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í Úkraínu mun auka þessa óvissu stórlega,“ sagði Gentiloni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert