„Við erum ekki hrædd“

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína fyrir skemmstu.
Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína fyrir skemmstu. AFP

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, segir Úkraínumenn ekki hrædda við neinn. Krefst hann þess að vesturveldin grípi til aðgerða án tafar eftir atburði dagsins. 

Zelenskí ávarpaði þjóð sína í nótt eftir að hafa ráðfært sig við helstu þjóðarleiðtoga á Vesturlöndum. Sagði hann að ákvörðun Rússa um að viðurkenna Donbass-héruðin tvö og senda inn herlið væri skýrt brot á fullveldi og landamærum Úkraínu.

Skoraði hann á bandamenn Úkraínu að beita Rússa refsiaðgerðum þegar í stað, á sama tíma og hann kallaði eftir að Úkraínumenn héldu ró sinni.

„Við erum á okkar eigin landi,“ sagði Zelenskí. „Við hræðumst ekki neitt eða neinn.“

Forsetinn yfirgefi Kænugarð

Bandarísk stjórnvöld hafa lagt það til við forsetann að hann flytji sig frá Kænugarði til borgarinnar Lviv, sem er mun vestar í landinu og um 70 kílómetrum frá landamærunum að Póllandi.

Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar hefur þetta eftir bandarískum embættismanni, sem tjáði sig undir nafnleynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert