Vilja að Zelenskí fari til Lviv

Bandaríkjastjórn vill að Zelenskí fari til Lviv, samkvæmt heimildum ABC-fréttastofunnar.
Bandaríkjastjórn vill að Zelenskí fari til Lviv, samkvæmt heimildum ABC-fréttastofunnar. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa lagt það til við Volodymyr Zelenskí, forseta Úkraínu, að hann flytji sig frá Kænugarði til borgarinnar Lviv, sem er mun vestar í landinu og um 70 kílómetrum frá landamærunum að Póllandi.

Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar hefur þetta eftir bandarískum embættismanni, sem tjáði sig undir nafnleynd.

Allt starfslið Bandaríkjanna yfirgefi Úkraínu

Flest vestræn ríki hafa þegar flutt sendiráð sín til Lviv vegna innrásarógnarinnar, en Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á föstudaginn að Bandaríkjamenn teldu að takmark innrásar Rússa yrði að sækja að Kænugarði.

Fyrr í kvöld ákvað svo bandaríska utanríkisþjónustan að allt starfslið sinna sendiráða myndi yfirgefa Úkraínu.

Sendiherrar Frakklands og Þýskalands hyggjast vera áfram í Kænugarði, samkvæmt síðustu upplýsingum þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert