Bandarísk stjórnvöld hafa lagt það til við Volodymyr Zelenskí, forseta Úkraínu, að hann flytji sig frá Kænugarði til borgarinnar Lviv, sem er mun vestar í landinu og um 70 kílómetrum frá landamærunum að Póllandi.
Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar hefur þetta eftir bandarískum embættismanni, sem tjáði sig undir nafnleynd.
Flest vestræn ríki hafa þegar flutt sendiráð sín til Lviv vegna innrásarógnarinnar, en Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á föstudaginn að Bandaríkjamenn teldu að takmark innrásar Rússa yrði að sækja að Kænugarði.
Fyrr í kvöld ákvað svo bandaríska utanríkisþjónustan að allt starfslið sinna sendiráða myndi yfirgefa Úkraínu.
Sendiherrar Frakklands og Þýskalands hyggjast vera áfram í Kænugarði, samkvæmt síðustu upplýsingum þaðan.