Búa sig undir að taka við Úkraínumönnum

Við landamæri Póllands og Úkraínu.
Við landamæri Póllands og Úkraínu. AFP

Nágrannaríki Úkraínu hafa um nokkurt skeið búið sig undir flóttamannastraum ef ástandið í landinu versnar enn.

„Innanríkisráðuneytið hefur nú í nokkurn tíma verið að undirbúa hugsanlegan straum fólks, jafnvel milljón manns, frá Úkraínu,“ sagði Maciej Wasik innanríkisráðherra Póllands í síðasta mánuði.

Pólland, sem á landamæri að Úkraínu, er í viðbragðsstöðu og hefur lýst yfir einörðum stuðningi við stjórnvöld Úkraínu. Í dag var tilkynnt að pólsk stjórnvöld væru með nokkrar mismunandi áætlanir ef allt færi á versta veg.

Búið er að setja af stað áætlun um bestu umferðarleiðirnar, heilsufarsviðbúnað og farandskóla til að taka á móti fjölda flóttamanna, og hafa Pólverjar fengið vilyrði fyrir fjárhagsstuðningi frá Evrópusambandinu.

Slóvakía og Rúmenía

Slóvakía, sem á landamæri að vesturhluta Úkraínu, mun líka vera tilbúin. Í Slóvakíu eru fjórar flóttamannabúðir sem gætu tekið á móti Úkraínumönnum sem sækja hælis.

„En ef þess þarf munum við nota húsnæði á vegum ráðuneyta landsins,“ sagði slóvakíski innanríkisráðherrann Roman Mikulec í gær.

Stjórnvöld Rúmeníu, sem er eitt fátækasta land Evrópu, búast ekki við að margir flóttamenn komi til þeirra, en segjast geta tekið á móti hálfri milljón manna.

„Það er fjöldinn sem við getum tekið við,“ sagði varnarmálaráðherrann Vasili Dancu í gær. Landamæri Rúmeníu og Úkraínu eru um 650 km löng og Dancu sagði að þeir gætu sett upp móttökustöðvar í stærri bæjum meðfram landamærunum.

Linda Thomas-Greenfield sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Linda Thomas-Greenfield sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Eitt stærsta flóttamannavandamál heimsins

Á fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í dag lýstu Bandaríkjamenn áhyggjum sínum af því að innrás Rússa í Úkraínu gæti sett af stað faraldur flóttamanna, allt að fimm milljónum manna.

„Ef Rússland heldur áfram á þessari braut, munum við sjá eitt stærsta flóttamannavandamál heimsins í dag,“ sagði Linda Thomas-Greenfield sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert