Ekki hægt að semja um hagsmuni Rússa

Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir að stjórnvöld í landinu séu reiðubúin til að finna „diplómatískar lausnir“ vegna stöðu mála í Úkraínu en leggur áherslu á að ekki sé hægt að semja um hagsmuni Rússa.

„Þjóðin okkar er alltaf opin fyrir beinum og hreinskiptum samræðum í átt að diplómatískum lausnum vegna flóknustu vandamálanna,“ sagði Pútín í sjónvarpsræðu í tilefni af frídegi Rússa sem er í dag og kallast Dagur verjanda föðurlandsins. 

Hann bætti þó við: „Hvað okkur varðar þá er ekki hægt að semja um hagsmuni Rússa og öryggi okkar borgara.“

Pútín hrósaði karlmönnum landsins, sagðist vera sannfærður um „fagmennsku“ rússneska hersins og að þeir muni sjá til þess að hagsmunum landsins verði þjónað.

Pútín.
Pútín. AFP

Hann lýsti einnig yfir ánægju með það hve rússneski herinn er tilbúinn í bardaga og sagði að landið muni halda áfram að nýta sér nýjustu vopnin sem í boði eru.

„Við munum halda áfram að þróa nýjustu vopnakerfin, þar á meðal þau sem eru hljóðfrá og þau sem byggja á nýjum eiginleikum. Einnig munum við víkka út notkun háþróaðrar stafrænnar tækni og gervigreindar,“ sagði Pútín. „Þetta eru sannarlega vopn framtíðarinnar sem auka til muna bardagagetu hersveita okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert