Engin opinber yfirlýsing frá Íslandi

Þjóðvarðliðar standa vörð um þinghúsið í Kænugarði í dag.
Þjóðvarðliðar standa vörð um þinghúsið í Kænugarði í dag. AFP

Íslensk yfirvöld hafi ekki gefið út opinbera yfirlýsingu þar sem íslenskir ríkisborgarar staðsettir í Úkraínu eru hvattir til þess að yfirgefa landið, en Ísland heldur ekki úti sendiskrifstofu í landinu. 

„Við erum í nánu sambandi við íslenska ríkisborgara sem eru í Úkraínu og hvetjum þá til að fylgjast mjög vel með framvindunni og kynna sér ferðaviðvaranir annarra ríkja. Við erum ekki að gefa út opinberar yfirlýsingar, en höfum hvatt fólk til að fylgjast með viðvörunum annarra ríkja og þær eru nú flestar á þann veg að það sé ráð að huga að brottför,“ segir Sveinn Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins í samtali við mbl.is.

23 skráðir í Úkraínu

Síðastliðna viku hafa 23 verið skráðir hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem staðsettir í Úkraínu. Á meðal þeirra eru 15 íslenskir ríkisborgarar og átta einstaklingar með náin tengsl við íslenska ríkisborgara. 

Nú síðast í kvöld gáfu yfirvöld í Frakklandi út yfirlýsingu þar sem franskir ríkisborgarar í Úkraínu eru hvattir til að yfirgefa landið „án tafar“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert