Íbúar í Úkraínu búa sig undir stríð

Íbúar í bænum Schastia leita skjóls frá stríðsátökunum á svæðinu …
Íbúar í bænum Schastia leita skjóls frá stríðsátökunum á svæðinu í kjallara íbúðarhúsnæði þeirra. AFP

Íbúar í bænum Schastya, sem staðsettur er á landamærum Lugansk, eins af tveimur yfirráðasvæðum rússneskra aðskilnaðarsinna í Úkraínu, búa sig nú undir stríð.

Bærinn hefur fram að þessu verið tákn um fyrirheit í átökum milli Rússlands og Úkraínu sem hófust árið 2014, en nafn bæjarins þýðir „hamingja“.

Leita skjóls frá sprengjuárásum í kjallara

Það er þó ekki mikil hamingja sem ríkir í bænum eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi sjálfstæði svæðanna tveggja sem eru á valdi aðskilnaðarsinnanna, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

Hin níræða Raisa Simanovna, sefur enn í íbúð sinni, sem staðsett er á fremstu víglínunni í austurhluta Úkraínu, en á daginn fer hún niður í kjallarann sinn til að leita skjóls frá hernaðarátökunum.

„Við eigum von á að stríð hefjist hvenær sem er, á hvaða mínútu sem er,“ sagði Simanovna er hún bar skarlatrauðan klút fyrir vitum sér á leið sinni niður í kjallarann.

Rafmagns-, vatns- og hitalaust er í íbúðarblokkinni sem hún býr í eftir að sprengju var varpað á rafmagnsveitu bæjarins.

Líkt og þeir fáu nágrannar sem hún á eftir, er Simanovna umkomulaus. Af þeim tíu 10 íbúðum sem eru í blokkinni eru aðeins þrjár búið í þremur þeirra.

Hin níræða Raisa Simanovna, er einn íbúa á fremstu víglínunni …
Hin níræða Raisa Simanovna, er einn íbúa á fremstu víglínunni í austurhluta Úkraínu. AFP

„Við bjuggumst ekki við þessu“

Í fyrrinótt kviknaði eldur á svæðinu og mátti sjá íbúa á svæðinu hreinsa upp skemmdirnar eftir eldsvoðann í gær.

Valentina Shmatkova, 59 ára, segist hafa vaknað við það þegar allir gluggarnir í tveggja herbergja íbúðinni hennar splundruðust.

„Við eyddum stríðinu í kjallaranum,“ sagði hún meðan hún hreinsaði glerbrotin upp af gólfinu, og vísaði þar til stríðsátakanna á svæðinu á árunum 2014 til 2016.

„En við bjuggumst ekki við þessu. Við héldum aldrei að Úkraína og Rússland myndu ekki ná sáttum á endanum.“

„Ég hélt ekki að það yrðu átök. Ég hélt að forseti okkar og Rússlandsforseti væru gáfaðir og skynsemir menn,“ sagði hún.

„Ég er með eina beiðni: að þeir leysi úr þessu svo við getum gleymt þessum misskilningi!“

Spurð hvað henni fyndist um ákvörðun Pútíns um að viðurkenna sjálfstæði svæði rússnesku aðskilnaðarsinnanna hló Shmatkova: „Ég hef ekki hugmynd um hvað er í gangi, við höfum ekkert ljós, ekkert rafmagn, ekkert!“

Rúður í íbúðarhúsum sprungu þegar sprengju var varpað á bæinn.
Rúður í íbúðarhúsum sprungu þegar sprengju var varpað á bæinn. AFP

„Við verðum að yfirgefa svæðið“

Sprengingunum fjölgaði eftir því sem leið á daginn og mátti sjá svartan reyk leggja frá rafmagnsveitu bæjarins eftir að sprengju var varpað á hana.

„Þeir eru að reyna að miða á brúna,“ sagði einn íbúinn rólega, er jörðin skalf undan honum.

Í nágrenninu sátu Daniil og faðir hans á bekk fyrir utan heimili sitt þar sem þeir fengu sér rettu.

Yngri maðurinn, sem er atvinnulaus, sagðist vilja vera áfram í Schastya, þrátt fyrir skort á atvinnumöguleikum þar, en bætti því við að ræða Pútíns gæti breytt skoðun hans.

„Þeir viðurkenndu sjálfstæði lýðveldanna og það þýðir stigmögnun á ástandi, sem þýðir að við verðum að yfirgefa svæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert