Gíslatökumaðurinn sem hélt sig í Apple-búðinni í Amsterdam í kvöld var handsamaður eftir að hann hljóp á eftir gísl sem slapp. Allir gíslarnir eru öruggir, að sögn hollensku lögreglunnar.
„Við getum staðfest að gíslatökumaðurinn er kominn út úr Apple-búðinni,“ greindi lögregla frá í tísti á tíunda tímanum í kvöld. Hún staðfesti á sama tíma að gíslunum væri borgið.
Lögreglan staðfesti síðar í röð af tístum að engin sprengiefni hefðu fundist á manninum eftir að fjarstýrt vélmenni leitaði þess.
Þar að auki sagði lögregla að hún hefði komist til gíslanna og að þeir myndu hljóta áfallahjálp.
Myndskeið sem var í dreifingu á samfélagsmiðlum í kvöld sýnir það þegar manninum var náð. Þar má sjá hvernig hann hleypur á eftir einum gíslanna.
Í sömu andrá keyrir bíll á vegum lögreglu á manninn. Engu skoti er hleypt af í myndskeiðinu og maðurinn handsamaður án þess að verr færi.
Myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan en rétt er að nefna að það er ekki fyrir viðkvæma:
#leidseplein apple store pic.twitter.com/iRnHAQ4EcR
— NewsNL (@HustleTillWeDie) February 22, 2022