Í skugga yfirvofandi átaka kallaði Úkraína út varalið í dag og Rússar fluttu starfslið sitt úr sendiráðinu í Kænugarði.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur ekki látið refsiaðgerðir stöðva sig í að hafa herlið sitt reiðubúið á landamærunum til innrásar í Úkraínu.
Forseti Úkraínu, Volodimír Zelenskí, hefur kallað út 200 þúsund manna varalið sem er í viðbragðsstöðu til að verja Úkraínu ef til átaka kemur.
Tilraunir Vesturlanda til að halda aftur af yfirvofandi innrás hafa ekki gengið eftir en forstöðumenn Evrópusambandsins hafa boðað til úrslitafundar á morgun í Brussel þar sem staðan verður rædd.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, varaði við því á fundi í dag að „heimurinn stæði frammi fyrir mikilli hættu“ og að „umfang hættunnar gæti verið miklu meira en menn gerðu sér grein fyrir og áhrifanna gætt um mörg ókomin ár.“
Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Linda Thomas-Greenfield talaði um hugsanlegan fimm milljóna flóttamannavanda ef átök brytust út og gæti það valdið nýrri flóttamannakrísu í Evrópu.
Úkraína hefur hvatt u.þ.b. þrjár milljónir borgara sinna sem búa í Rússlandi til að yfirgefa landið.
„Við erum sammála um að framtíð Evrópu og öryggi hennar er í húfi og verður ákveðið hérna í Úkraínu,“ sagði Zelenskí á blaðamannafundi með forráðamönnum Póllands og Litháen í dag.
„Úkraína þarf skýr og nákvæm vilyrði fyrir stuðningi um öryggi sitt strax,“ sagði hann og bætti við að Rússar yrðu að vera eitt þeirra landa sem gefa skýr skilaboð um að öryggi landsins sé tryggt.
Rússar hafa sent um 150 þúsund manna herlið til landamæra Úkraínu sem liggja að Hvíta-Rússlandi og Krímskaganum.
Úkraína hefur u.þ.b. 200 þúsund manna herlið og hafa verið að reyna að ná 250 þúsund varamenn í herinn á aldursbilinu 18-60 ára. Herstyrkur Moskvu er hins vegar miklu meiri eða í kringum milljón virkra hermanna sem hafa hlotið þjálfun og tekið þátt í átökum undanfarin ár.
En Úkraína hefur fengið skriðdreka og dróna senda frá ríkjum NATO. Meiri stuðningi hefur verið lofað meðan verið er að reyna að hindra yfirvofandi árás, eða að minnsta kosti láta hana verða Rússum dýrkeypta.
Skotárásir hafa aukist undanfarna daga á víglínunni. Úkraínskur hermaður var skotinn í dag, sá sjötti á fjórum dögum, og íbúar á svæðinu eru skelkaðir.
Dmitrí Maksimenko, 27 ára kolagröfumaður frá Krasnogorivka, sagði AFP-fréttaveitunni að hann hefði verið í áfalli þegar kona hans sagði honum að Pútín hefði viðurkennt sjálfstæði aðskilnaðarsinna í Donetsk og Luhansk-héruðunum.
„Hún spurði mig hvort ég hefði heyrt fréttirnar og ég spurði hvernig ég ætti að hafa gert það. Það er ekkert rafmagn, og hvað þá internet. Ég veit ekkert hvað á eftir að gerast, en ég er virkilega skelkaður,“ sagði hann.
Altalað er bæði í Washington og í Lundúnum að Rússland sé í skotstöðu gegn Úkraínu sem gæti hafið stærsta stríð sem háð hefði verið í Evrópu um áratuga skeið. Pútín segist hins vegar tilbúinn til viðræðna, með skilyrðum þó. Helsta skilyrðið er að Úkraína fái ekki inngöngu í NATO og að bandarískt herlið verði kallað heim frá Austur-Evrópu.
„Hagsmunir Rússlands og öryggi þegna okkar eru ekki hluti af neinum samningsviðræðum,“ sagði Pútín í ræðu í dag.
Rússneski fáninn var tekinn niður á sendiráði landsins í Kænugarði í dag og fréttamaður frá AFP sá margar fjölskyldur yfirgefa sendiráðið með ferðatöskur.
Þrátt fyrir fjölda yfirlýstra refsiaðgerða vesturlanda hafa Kremlverjar bent á að olíuríkið Rússland sé með varasjóð upp á 639 milljarða dollara og eigi auk þess 182 milljarða dollara í Evrópu til þess að hjálpa þeim á neyðarstundum.