Úkraína sætir nú stöðugri netárás, samkvæmt netöryggisstofnun ríkisins, en netárásum þar í landi hefur fjölgað verulega undanfarna viku.
Stofnunin segir að árásir í dag hafi gert það að verkum að nokkrar vefsíður ríkisstjórnarinnar urðu tímabundið óvirkar, þar á meðal þær sem stjórnað er af ráðherranefndinni, þinginu, utanríkisráðuneytinu og öryggisþjónustu ríkisins.
Stofnunin bætti við að hún kenndi rússneskum aðilum um árásina og sagði þá ekki einu sinni reyna að fela lengur hverjir þeir væru.
Vefsíður nokkurra ráðuneyta og banka urðu fyrir árás í fyrsta skipti í síðustu viku. Embættismenn sögðu DDoS-árás vera af rússneskum uppruna.
Úkraína stendur frammi fyrir vaxandi ótta um yfirvofandi innrás Rússa, sem ágerðist enn frekar þegar Kremlverjar viðurkenndu sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur einnig samþykkt að hermenn verði sendir til austurhluta Úkraínu. Kremlverjar sögðu þá í kvöld að leiðtogar aðskilnaðarsvæðanna tveggja hefðu nú formlega beðið Pútín um hjálp.