Blóðugur fyrsti dagur átaka í Úkraínu

Innrás Rússa mótmælt í Varsjá í kvöld.
Innrás Rússa mótmælt í Varsjá í kvöld. AFP

Hersveitir Rússa gerðu árásir á skotmörk víða í Úkraínu í dag. Tugir létust í átökunum og óttast er að herinn eigi eftir að gera innrás í Kænugarð á næstu dögum eða vikum þrátt fyrir refsiaðgerðir ríkja Vesturlanda.

Landher Rússa réðst inn í Úkraínu úr suðri, norðri og austri snemma í morgun með notkun skriðdreka og annarra farartækja. Rússneskum eldflaugum rigndi yfir úkraínskar borgir og þurftu almennir borgarar að leita sér skjóls í neðanjarðarlestarstöðvum.

Fjöldi fólks hefur þegar misst heimili sín eða þurft að yfirgefa þau.

Hið minnsta 68 létust í dag, ýmist almennir borgarar eða hermenn, samkvæmt óstaðfestum upplýsingum úkraínskra yfirvalda. 

AFP

Gæti reynst Rússum mikilvægur

Hersveitir Rússa náðu á sitt vald herfræðilega mikilvægum flugvelli nærri Kænugarði sem og vettvangi Tsjernóbyl-kjarnorkuslyssins.

Vitni segja að rússneski herinn hafi náð Gostomel-flugvellinum á sitt vald eftir að hafa ráðist skyndilega á hann úr lofti, bæði með þyrlum og þotum sem komu í átt frá Hvíta-Rússlandi. Flugvöllurinn gæti reynst Rússum afar mikilvægur í stríðinu þar sem auðvelt væri að flytja vopn og hermenn inn í Kænugarð með notkun hans. 

Samkvæmt upplýsingum leyniþjónusta ýmissa Vesturlanda stefna Rússar að því að safna saman „yfirþyrmandi afli“ í kringum höfuðborgina. 

AFP

 Nýtt járntjald

Rússnesk yfirvöld segja að markmiðum dagsins hafi verið náð og að yfir 70 hernaðarlega mikilvæg skotmörk hafi verið eyðilögð, þeirra á meðal 11 flugvellir.

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, sagði í dag að „nýtt járntjald“ hefði risið á milli Rússlands og heimsins, rétt eins og í kalda stríðinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti jafnframt í dag um breytingar á útflutning til Rússlands og frekari refsiaðgerðir gegn háttsettum herforingjum og stjórnmálamönnum.

Zelenskí kallaði árásina á Tsjernóbyl „stríðsyfirlýsingu gegn Evrópu allri“.

AFP

Verja svæði aðildarríkja

Biden ítrekaði í dag að bandarískt herlið í Evrópu myndi ekki taka þátt í stríði Rússlands og Úkraínu heldur verja svæði aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og uppfylla frekari skyldur sínar gagnvart ríkjum sambandsins. 

Loftvarnarflautur hljómuðu í Kænugarði snemma í morgun þegar helsti flugvöllur borgarinnar varð fyrir eldflaugaárás í fyrstu skeytahríð á borgina síðan í annarri heimsstyrjöld.

Útgöngubann var sett á í borginni en lestarstöðvar voru áfram opnar og þjónuðu í dag tilgangi loftvarnarbyrgja. 

Hið minnsta átján létust í árás á herstöð nærri Svartahafs-höfninni Odessu í mannskæðustu árás dagsins.

Úkraínsk yfirvöld segja að hersveitir sínar hafi orðið um 50 rússneskum hermönnum að bana nærri svæðum aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Þá varð mannfall á báða bóga í þorpinu Starognativka þar sem aðskilnaðarsinnar hafa reynt að sækja fram í dag. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert