Borgin þögul en fólk að ná í vistir

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og listamaður sem býr í Kænugarði, segir borgina þögla í dag.

„Það hefur ekki gerst mikið meira frá því í nótt. Sírenur fóru í gang einu sinni og ein sprenging heyrðist í borginni. Ennþá er netsamband og maður fylgist bara með átökunum á netinu. Það er búið að skjóta niður nokkrar þyrlur í nágrenninu og áðan heyrðist í þotum sem hringsóluðu hérna í kring, en það er allt stjórnarher Úkraínu," greinir Óskar frá.

„Sírenurnar fara í gang ef talið er að almennir borgarar gætu verið í hættu. Svo sá ég að eldflaugum er beint að borginni, en ég trúi því ekki að þetta verði allsherjarstríð. Pútín hefur bara hvorki herafla né fjárráð til að halda heilu landi í herástandi og það vill hann enginn hérna. Hann er með 30% heraflans í Hvíta-Rússlandi og hann er ekkert að taka Kænugarð með þeim afla, enda búa hér 3 milljónir manna og borgin er mjög dreifð,“ bætir hann við. 

Biðraðir við matvöruverslanir, apótek og hraðbanka

Hann bætir við að svo virðist sem bæði árásarmörk og netárásir hafi beinst að hernaðarlegum skotmörkum og fjármálastofnunum. „Við fórum í búð í morgun til að kaupa inn vistir fyrir a.m.k. viku og þeir tóku enn við kreditkortum, nema frá Monobank, sem greinilega hefur orðið fyrir netárás.“

Hann segir mikla ásókn í vistir í matvöruverslunum. „Við keyptum t.d. síðustu 3 baunadósirnar í búðinni í morgun, en ég hugsa að allt brauð sé búið núna.“ Þótt borgin sé þögul, er fólk á ferli og langar biðraðir við verslanir, apótek og hraðbanka.

„Ræðan algjört rugl“

Óskar bætir við að eftir að hafa hlustað á ræðu Pútíns og lesið þýðingu á henni hafi hann gert sér grein fyrir að Pútín sé klikkaður. „Ræðan var bara algjört rugl og hann þvaðraði eins og karl eftir þriggja daga fyllerí.“

Hann telur að Pútín sé að ásælast Donbas-hérað og betri aðgang að Svartahafinu. „Það er mikið af kolasvæðum og öðrum auðlindum í Donbas og hann ásælist landleiðina að Krímskaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert