Búast við holskeflu flóttafólks

Umferðaröngþveiti myndaðist í höfuðborginni Kænugarði í morgun þegar mikill fjöldi …
Umferðaröngþveiti myndaðist í höfuðborginni Kænugarði í morgun þegar mikill fjöldi íbúa reyndi að koma sér í austur átt frá borginni. Nágrannaríki Úkraínu búa sig undir holskeflu flóttafólks vegna innrásar Rússa. AFP

Yfirvöld í nágrannaríkjum Úkraínu búa sig undir holskeflu flóttafólks í kjölfar innrásar Rússlands sem hófst af fullu afli í nótt.

Í Póllandi er nú unnið að því að setja upp níu móttökustöðvar á landamærum ríkjanna og Þjóðverjar hafa lofað Póllandi mikilli aðstoðar vegna þessa. Innanríkisráðherra Póllands segir að þar standi Úkraínumönnum opnar dyr og segir að að landið muni taka á móti „eins mörgum og verða á landamærunum.“

„Það er öruggt að það verður holskefla flóttamanna sem koma til landsins,“ sagði Mariusz Kaminski, innanríkisráðherra Póllands, við blaðamenn í dag. Pólland og Úkraína deila 535 km landamærum, en auk þess á Úkraína landamæri að Slóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Moldavíku, til viðbótar við Rússland og Hvíta-Rússland, þaðan sem innrásir Rússa hafa komið.

kort/mbl.is

Samkvæmt yfirmanni landamæragæslu Póllands, Tomasz Praga, komu á síðasta sólarhring um 15 þúsund manns til Póllands frá Úkraínu. Miðað við mikinn fjölda fólks sem hefur flúið borgir og haldið í vestur má búast við að sú tala muni hækka umtalsvert. Talið er að íbúafjöldi Úkraínu, utan svæðanna tveggja sem aðskilnaðarsinnar stjórnuðu í austurhluta landsins, væri rúmlega 37 milljónir.

Bjóða upp á máltíðir, læknisaðstoð og svefnrými

Í þeim móttökustöðum sem Pólland ætlar að koma upp á landamærunum verður boðið upp á máltíðir, læknisaðstoð, svefnrými auk þess sem upplýsingaþjónusta verður á staðnum. Þjóðverjar hafa heitið Póllandi aðstoð vegna mögulegs straums flóttafólks og sagði Nancy Feaser, innanríkisráðherra Þýskalands, í dag að fylgst væri vel með þróun mála. „Við munum veita mikla aðstoð til þeirra ríkja“ sagði hún um þau ríki þangað sem flóttafólk mun leita og bætti við „sérstaklega til nágranna okkar Pólverja.“

Mariusz Kaminski, innanríkisráðherra Póllands.
Mariusz Kaminski, innanríkisráðherra Póllands. AFP

Í Slóvakíu eru fjór­ar flótta­manna­búðir sem gætu tekið á móti Úkraínu­mönn­um sem sækja hæl­is. Stjórn­völd Rúm­en­íu, sem er eitt fá­tæk­asta land Evr­ópu, bú­ast ekki við að marg­ir flótta­menn komi til þeirra, en segj­ast geta tekið á móti hálfri millj­ón manna.

Í gær varaði Felippo Grandi, yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, við því að innrás Rússa gæti leitt til hörmulegra afleiðinga. Sagði hann enga sigurvegara í stríði, en að líf fjölmargra íbúa yrði eyðilagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert