Augu heimsins beinast nú að Úkraínu eftir að Rússar sendu hersveitir inn í landið og hafa í hótunum um að innlima það allt. Pútín, forseti Rússa, fullyrðir að Úkraína tilheyri Rússlandi, rússneskri sögu og menningu. Hann segir að landið hafi verið hrifsað af Rússum og íbúar þess eigi ekkert tilkall til að vera sjálfstæð þjóð.
Rætur þessara viðhorfa forsetans eru djúpar. Drjúgan hluta síðustu aldar, frá um 1917 til 1991, var landið hluti Sovétríkjanna. Pútín, sem verður sjötugur í haust, er mótaður af forneskjulegri heimsmynd og menningu hinna gömlu Sovétríkja. Hann var foringi í hinni illræmdu leyniþjónustu KGB þegar Sovétríkin liðuðust í sundur fyrir rúmum þrjátíu árum, 1991. Þá gripu fjölmörg lönd, sem innlimuð höfðu verið í Sovétríkin, Úkraína þar á meðal, tækifærið og lýstu yfir sjálfstæði. Almenningur í þessum löndum vildi lýðræði, mannréttindi og lífskjör að vestrænni fyrirmynd.
Eftir að kommúnistar náðu völdum í Rússlandi 1917 tókst þeim að koma Úkraínu undir sín yfirráð í óreiðunni og upplausninni sem fylgdi heimsstyrjöldinni fyrri. Frægasti og jafnframt hörmulegasti atburðurinn í sögu Úkraínu undir járnhæl Sovétríkjanna er hungursneyðin mikla 1932 til 1933. Talið er að um 7 milljónir manna hafi látist þegar Stalín, einræðisherra kommúnista, lét neyða samyrkjubúskap upp á landið og útrýma sjálfstæðri bændastétt. Oft er talað um þessa atburði sem þjóðarmorð og svo er gert í Úkraínu, enda er enginn vafi á því að Stalín og samverkamenn hans vissu vel hvað var að gerast, gerðu ekkert til að hindra það og bönnuðu matvælaaðstoð erlendra þjóða.
Úkraína varð einnig illa úti í seinni heimsstyrjöldinni. Þýskar hersveitir á leið til Rússlands gerðu þar mikinn usla. Er talið að allt að 5 milljónir landsmanna hafi látist af völdum átaka á stríðsárunum og um fimmtungur þeirra verið gyðingar sem lentu í hreinsunum nasista. Úkraína hefur löngum verið gjöfult landbúnaðarland. Sá Hitler yfirráð yfir Úkraínu sem leið til að tryggja sér hráefni til matvælaframleiðslu og var á þeim tíma talað um landið sem kornforðabúr Þýskalands.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.