Tékkland og Lettland tilkynntu í dag að þau hefðu hætt útgáfu vegabréfsáritana til rússneskra ríkisborgara í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
„Við erum að fresta afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun frá rússneskum ríkisborgurum á öllum ræðisskrifstofum okkar að undanskildum mannúðarmálum,“ sagði Petr Fiala, forsætisráðherra Tékklands.
Fiala tilkynnti einnig lokun tékkneskra ræðisskrifstofa í rússnesku borgunum Sankti Pétursborg og Jekaterínborg. Þá hafa ræðisskrifstofur Rússlands í tékknesku borgunum Karlovy Vary og Brno ekki lengur leyfi til að starfa.
Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, tísti í dag að hann hefði ákveðið að kalla inn sendiherra Lettlands frá Rússlandi.
Lettland tilkynnti einnig í dag þá ákvörðun að banna þrjár rússneskar sjónvarpsstöðvar í þrjú til fimm ár.