Þjóðarleiðtogar víða um heim voru snöggir til að fordæma innrás rússneskra hersveita Úkraínu í nótt. Nú þegar hafa nokkrir þeirra gripið til enn frekari refsiaðgerða gegn Rússum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur krafist þess að átökin taki enda „strax“.
Í samtali við mbl.is á áttunda tímanum í morgun sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld fordæmi innrásina harðlega. „Og það má segja að þetta sé versta sviðsmyndin að raungerast í þessum málum,“ sagði hún.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tjáði sig um innrásina á Facebook í dag og sagði hana árás á „okkar gildi“.
„Virðingu fyrir alþjóðalögum, áherslu á frið og lýðræðislegar framfarir. Hörmulegt skeytingarleysi gagnvart öllu sem skapar grundvöll framfara og velsældar. Við eigum að taka fullan þátt í aðgerðum NATO og fordæma þessa framgöngu.“
Hér má finna frekari viðbrögð þjóðarleiðtoga við innrásinni.
„Bænir alls heimsins eru hjá Úkraínumönnum í nótt, á sama tíma og þeir þjást vegna tilefnislausrar og óréttlætanlegrar árásar af hendi rússneskra hersveita,“ sagði forsetinn skömmu eftir að innrásin hófst.
Þá varaði hann við því að Rússar væru „einir ábyrgir fyrir þeim dauðsföllum og þeirri eyðileggingu sem gjörðir þeirra hafa í för með sér.“
„Heimsbyggðin mun draga Rússa til ábyrgðar.“
„Mér blöskrar vegna hinna hræðilegu atburða í Úkraínu og ég hef rætt við Zelensky forseta um næstu skref,“ skrifaði Boris á Twitter.
„Pútín hefur valið leið blóðsúthellinga og eyðileggingar með því að ráðast í þessa tilefnislausu árás á Úkraínu. Bretland og bandamenn okkar munu bregðast við með ótvíræðum hætti.“
„Á þessum dimmu tímum er hugur okkar hjá Úkraínu og saklausu konum, karlmönnum og börnum sem nú lifa í ótta um líf sín,“ skrifuðu Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á Twitter.
„Við munum draga Kremlin [þ.e. stjórnvöld í Rússlandi] til ábyrgðar.“
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sagði Rússland hafa valið slóð árása gegn fullvalda og sjálfstæðu ríki.
Árásin „stefnir óteljandi lífum almennra borgara í hættu“, að sögn Stoltenbers. Í yfirlýsingu lýsti hann henni sem „alvarlegu broti gegn alþjóðalögum og verulegri ógn við öryggi evrópskra ríkja í Atlantshafi.“
Klukkan 7:30 mun fastaráð Atlantshafsbandalagsins funda þar sem Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá NATO, mun sitja í umboði íslenskra stjórnvalda.
„Þessar tilefnislausu árásir eru augljóst brot á fullveldi Úkraínu og landhelgi Úkraínu og á skuldbindingum Rússlands samkvæmt alþjóðalögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Trudeau í yfirlýsingu.
Hann ætlar sér að funda með fleiri þjóðarleiðtogum í dag til þess að ákveða samstiga viðbrögð við innrás Rússlands. „Meðal annars með því að beita refsiaðgerðum sem bætast þá við þær sem voru tilkynntar fyrr í þessari viku.“
Þá sagði Trudeau, eins og fleiri leiðtogar, að rússnesk yfirvöld yrðu dregin til ábyrgðar.
„Við verðum að bregðast við glæpsamlegum árásum Rússlands gegn Úkraínu þegar í stað. Evrópa og hinn frjálsi heimur verða að stöðva Pútín,“ skrifaði Morawiecki á Twitter.
„Evrópuráðið ætti að samþykkja allra hörðustu mögulegu refsiaðgerðir. Stuðningur okkur við Úkraínu verður að vera raunverulegur.“
Guterres biðlaði til Pútíns eftir neyðarfund í öryggisráði SÞ í nótt um að stöðva innrásina „fyrir mannkynið.“
„Ekki leyfa því sem gæti orðið versta stríð í Evrópu á þessari öld að hefjast,“ sagði Gueterres. „Átökunum verður að linna strax.“
Þá bætti Guterres því við að um væri að ræða sorglegasta dag hans í embætti.
Kyslytsya kallaði eftir því á fyrrnefndum fundi að öryggisráðið gerði allt sem í þess valdi stendur til þess að stöðva stríðið. Þá krafðist hann þess að sendiherra Rússlands í ráðinu afsalaði sér sæti sínu.
„Það er enginn hreinsunareldur til fyrir stríðsglæpamenn. Þeir fara beint til helvítis, sendiherra,“ sagði Kyslytsya, í tilfinningaþrungnu ávarpi sínu.