Um þrjú hundruð manns komu saman fyrir utan rússneska sendiráðið í Reykjavík í dag og mótmæltu innrás Rússa í Úkraínu.
„Ég var sleginn þegar ég heyrði fréttirnar af innrásinni í morgunsárið og veit að ég tala fyrir munn margra Rússa. Ég hef verið í sambandi við kollega mína víðs vegar um heiminn í dag og þar heyri ég sömu söguna,“ sagði Andrei Menshenin, rússneskur blaðamaður og skipuleggjandi mótmælana, í samtali við mbl.is fyrr í dag.
„Það eru allir slegnir yfir þessari atburðarás og mjög sorgmæddir. Margir Rússar hafa sett svarta prófílmynd á samfélagsmiðlana í dag til að reyna að sýna hvernig þeim líður og að þeir séu alls ekki fylgjandi þessari árás Pútíns.“