Vladimir Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipaði innrás í Úkraínu í nótt. Atburðarásin hefur verið hröð en mbl.is hefur fylgst með frá upphafi og greint frá framvindu innrásarinnar.
Hér verður stiklað á stóru í umfjöllun næturinnar.
Öryggisráð SÞ boðaði til neyðarfundar að beiðni Bandaríkjanna eftir að Volodimír Zelenskí forseti Úkraínu greindi frá því að Pútín hefði hafnað því að ræða við hann.
Skömmu eftir að neyðarfundurinn hófst í höfuðstoðvunum í New York hélt Pútín ávarp sem sjónvarpað var í rússneska ríkissjónvarpinu, rétt fyrir klukkan sex að morgni í Moskvu.
Þar tilkynnti forsetinn að hann hefði fyrirskipað „hernaðaraðgerð“ í austurhluta Úkraínu.
Skömmu síðar mátti heyra sprengingar víða í Úkraínu og þá ekki aðeins í austurhlutanum, heldur í Kænugarði, Odessa, Kharkiv og fleiri borgum.
Utanríkisráðherra Úkraínu varaði við því að „allsherjar innrás“ hefði verið sett af stað.
mbl.is ræddi í nótt við Óskar Hallgrímsson, ljósmyndara og myndlistarmann, sem er búsettur í Kænugarði.
„Ég vaknaði klukkan fimm í nótt og mjög fljótlega eftir það heyri ég tvær sprengingar. Síðan halda þær áfram, ein og ein og ein. Það eru að minnsta kosti sjö eða átta sprengingar sem ég er búinn að heyra,“ sagði Óskar.
Vikur af viðræðum Pútíns við erlenda þjóðarleiðtoga og beitingu refsiaðgerða gegn Rússlandi dugðu ekki til þess að koma í veg fyrir ákvörðun Pútíns, sem hafði stillt á milli 150 til 200 þúsund hermönnum upp meðfram landamærum Úkraínu áður en allt fór af stað.
Vestrænir þjóðarleiðtogar víða hafa fordæmt innrás Rússa og það hefur Evrópusambandið gert sömuleiðis.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, kallaði eftir því í kjölfar þess að innrásin hófst að heimurinn brygðist við árásinni undir eins, t.a.m. með því að beita þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi og veita Úkraínu fjárhagslega aðstoð.
Hann sagði „framtíð Evrópu og heimsins í húfi“. Kuleba telur að heimsbyggðin geti stöðvað Pútín ef hún bregðist hratt við.
Snemma í morgun sagði Zelenskí að árás Rússlands beindist gegn hernaðarinnviðum Úkraínu og landamæravörðum. Þá hvatti hann almenna borgara til að örvænta ekki og lofaði sigri í baráttunni.
Zelenskí hefur rætt við þónokkra þjóðarleiðtoga í kjölfar innrásarinnar og segist hann nú vinna að því að reisa bandalag gegn Pútín.
Kuleba tók í sama streng: „Pútín gerði árás, en enginn er að hlaupa í burtu. Herinn, stjórnarerindrekar, allir eru að vinna. Úkraína berst. Úkraína mun verja sjálfa sig. Úkraína mun sigra.“
Úkraínski herinn sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem hann sagðist hafa skotið niður fimm rússneskar flugvélar og eina þyrlu í austurhluta landsins nærri svæðum aðskilnaðarsinna.
Þá hafa skriðdrekar sést rúlla yfir landamærin suður frá Hvíta-Rússlandi.
Fregnir af því að árás á vestustu stórborg Úkraínu, Lviv, væri hafin bárust á sjöunda tímanum í morgun.