Ingólfur gráti nær í beinni útsendingu

Ingólfur Bjarni Sigfússon.
Ingólfur Bjarni Sigfússon. Skjáskot/RÚV

Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður átti erfitt með að halda aftur tárunum er hann flutti fréttir fyrir ríkisútvarpið í beinni útsendingu frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, í dag.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði rússneska hernum að ráðast inn í Úkraínu í nótt. Hófust þar með mestu hernaðaraðgerðir í álfunni síðan seinni heimsstyrjöldin átti sér stað og marka þær upphaf stríðs í Evrópu.

„Það er erfitt að finna ekki til með fólki“

Ingólfur er sem áður sagði staddur í Kænugarði ásamt Ingvari Hauki Guðmundssyni tökumanni, þaðan sem þeir hafa flutt fréttir síðastliðna daga.

Í aukafréttatíma RÚV í hádeginu voru sýnd viðtöl Ingólfs við almenna borgara þar sem hann spyr þá út í upplifun þeirra af stöðunni sem komin er upp í landinu og hvernig þeir sjái framhaldið fyrir sér á þessum óvissutímum.

Því næst er skipt yfir í beina útsendingu þar sem Ingólfur lýsir því hvernig hótelið sem hann og Ingólfur gista á var rýmt í miklu ofboði skömmu eftir að ofangreind viðtöl voru tekin. Eftir að út af hótelinu var komið hafi öllum svo verið stefnt á miklum hraða ofan í neðanjarðalestakerfi borgarinnar, sem sé í raun sprengjubyrgi borgarbúa, að sögn Ingólfs.

Fólkinu finnst það hafa verið yfirgefið

„Og þar sá maður einhvern veginn hvernig fólk var svona eins og blöðrur sem loftið var að leka úr,“ sagði Ingólfur Bjarni.

Þegar Ingólfur lýsti svo augnablikinu þegar eldri kona horfði á hann og gaf honum friðarmerkið, vöknaði honum um augun.

„Það var eiginlega bara átakanlegt. Svo var ung kona sem sat hinum megin í neðanjarðarlestinni og skrollaði í gegnum símann sinn og tárin fóru að trilla. Það er erfitt að finna ekki til með fólki sem finnst eins og það hafi verið yfirgefið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert