Innrás Rússa sambærileg innrás nasista

Zelenskí var í beinni útsendingu á Facebook fyrr í dag.
Zelenskí var í beinni útsendingu á Facebook fyrr í dag. AFP

Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, bar í dag innrás rússneskra hersveita í Úkraínu saman við hernaðaraðgerðir Þýskalands undir stjórn nasista í seinni heimsstyrjöldinni. 

„Rússland hefur ráðist á Úkraínu á huglausan og stórhættulegan hátt, alveg eins og Þýskaland nasista gerði í seinni heimsstyrjöldinni,“ sagði forsetinn þegar hann fór yfir stöðu mála í vefinnslagi.

Frá mótmælum fyrir framan rússneska sendiráðið í Osló.
Frá mótmælum fyrir framan rússneska sendiráðið í Osló. AFP

Nasistar réðust inn á landssvæði sem tilheyrir Úkraínu í dag árið 1941 og drápu milljónir íbúa.

Í nótt réðust Rússar svo inn í Úkraínu, að fyrirskipan Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. 

Hafa þjóðarleiðtogar víða um heim fordæmt innrásina, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands. 

„Þetta er Sudetenland

Nancy Pelosi, for­seti full­trúa­deild­ar Bandaríkjaþings, talaði á svipuðum nótum og Zelenskí í dag.

„Þetta er Sudetenland,“ sagði Pelosi og vísaði til svæðis í Tékkóslókvakíu sem Hitler réðist inn í skömmu fyrir seinni heimstyrjöld. Hitler innlimaði svæðið árið 1938 undir því yfirskini að hann vildi vernda þýskumælandi borgara. 

Zelenskí kallaði eftir því að Úkraínumenn færu út á götur og mótmæltu stríði. Hann hefur einnig hvatt Rússa til þess að mótmæla. 

„Fyrir alla þá sem enn hafa ekki glatað samvisku sinni í Rússlandi er kominn tími til að fara út og mótmæla stríðinu við Úkraínu,“ skrifaði Zelenskí á Twitter.

Víða um heim hefur stríðinu verið mótmælt af almennum borgurum, til að mynda í höfuðborgum Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands, Bretlands og Noregs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert