Joe Biden fundar með G7-ríkjunum

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti fundar með fulltrúum G7-ríkjanna í dag til að ræða nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innrásar þeirra inn í Úkraínu.

Um fjarfund er að ræða fyrir luktum dyrum, sem hófst klukkan tvö að íslenskum tíma. Á honum sitja fulltrúar frá sjö helstu iðnríkjum heims, þ.e. Bretlandi, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum.

Síðar í dag hyggst Biden svo ávarpa bandarísku þjóðina og fara yfir stöðuna sem nú er uppi í Úkraínu, en ávarpinu verður streymt beint frá Hvíta húsinu, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

Vinna að nýjum og harðari refsiaðgerðapakka

Í kjölfar aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússa við landamæri Úkraínu á síðastliðnum vikum hefur Biden, í samstarfi við Atlantshafsbandalagið og bandamenn þess, unnið að refsiaðgerðapakka gegn Rússum sem ætlað var að fæla þá frá því að gera frekari innrás.

Nú liggur þó fyrir að aðgerðapakkinn muni ekki hafa tilætluð áhrif þar sem Rússar hafa nú þegar ráðist inn í Úkraínu.

„Bandaríkin og bandamenn þeirra munu saman bregðast við af miklum ákafa. Heimurinn mun draga Rússa til ábyrgðar fyrir gjörðir þeira,“ sagði Biden á blaðamannafundi í gær, eftir að sprengjum frá rússneska hernum fór að rigna yfir Úkraínu.

Þá átti Biden einnig símafund við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu, og sagði í kjölfar þess hafa lofað að „veita Úkraínu og úkraínsku þjóðinni stuðning og aðstoð“.

Frá fjarfundi fulltrúa G7 ríkjanna í dag.
Frá fjarfundi fulltrúa G7 ríkjanna í dag. AFP

Benti hann einnig á að Zelenskí hafi beðið hann um að „hvetja þjóðarleiðtoga heimsins til að tala skýrt gegn yfirgangi Rússa“.

Vesturveldin gripu strax til aðgerða eftir að Pútín skipaði rússneska hernum yfir landamæri tveggja yfirráðasvæða rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu síðastliðinn þriðjudag.

Fela refsiaðgerðirnar meðal annars í sér tilraun til að svelta rússnesk stjórnvöld fjárhagslega.

„Við erum að inn­leiða þving­an­ir gagn­vart rík­is­skuld­um Rúss­lands. Það þýðir að við mun­um úti­loka rík­is­stjórn Rúss­lands frá vest­ræn­um fjár­fest­ing­um,“ sagði Biden á blaðamannafundi á þriðjudag.

Þá var einnig ákveðið að stöðva úttektarferli Nord Stream 2-gasleiðslurnar sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands um Eystrasalt, en leiðslan átti að tvöfalda gasútflutning frá Rússlandi til Þýskalands.

Munu mögulega banna útflutning til Rússlands

Bandarískir embættismenn segja nýju refsiaðgerðirnar munu beinast að öðrum og stærri rússneskum bönkum, og fleiri auðjöfrum sem tengjast Pútín Rússlandsforseta. Þá munu aðgerðirnar einnig fela í sér bann við útflutningi á hátæknibúnaði og íhlutum til Rússlands. 

Sumar aðgerðanna munu koma til með að hafa alvarleg efnahagsleg áhrif í vestrænum löndum og gætu aftrað bata efnahagslífsins á heimsvísu eftir kórónuveirufaraldurinn. Nú þegar hafa hlutabréf hrunið í verði og tunnuverð á olíu farið yfir 100 bandaríkjadali, jafnvirði 12 þúsund íslenskra króna.

Fljótlega eftir að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst lýstu bandarískir öldungadeildarþingmenn demókrata- og repúblikanaflokksins yfir stuðningi við beitingu harðra refsiaðgerða gegn Rússum.

„Ef Pútín greiðir ekki hrikalegt verð fyrir þetta brot, mun öryggi okkar sjálfra brátt vera í hættu,“ sagði Chris Murphy, öldungadeildarþingmaður demókrata.

Mark Warner, annar öldungadeildarþingmaður demókrata, sagði: „Biden forseti hefur nú þegar beitt fyrsta hluta refsiaðgerða og nú er kominn tími til að refsa rússnesku ríkisstjórninni enn harðar.“

Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður repúblikana, varaði við „hættunni af því að vanmeta harðstjórn Pútíns“, hvatti til þess að Rússar verði beittir „hörðustu efnahagslegu refsiaðgerðum mögulegum og að þeir yrðu gerðir „útlægir frá alþjóðlegum stofnunum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert