Kínversk stjórnvöld sögðu utanríkisráðherra Rússlands í dag að þau skildu „réttmætar áhyggjur yfir öryggismálum“ Úkraínu, samkvæmt yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Kína gaf út í kjölfar innrásar rússneskra hersveita í Úkraínu.
Í símtali Wang Yi, utanríkisráðherra Rússlands, og rússneska kollega hans Sergei Lavrov sagði Wang að þó svo að kínversk stjórnvöld „hafi alltaf virt fullveldi og landhelgi allra landa... höfum við líka séð að „Úkraínuvandinn“ eigi sína eigin flóknu og einstöku sögu“.
„Við skiljum réttmætar áhyggjur Rússa af öryggismálum,“ bætti Wang við.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, tilkynnti um innrás í Úkraínu í nótt. Sprengingar hafa síðan heyrst í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, og víðar. Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt innrásina.
Rússnesk stjórnvöld hafa krafist þess að fá staðfestingu á því að Úkraína muni aldrei fá inngöngu í Atlantshafsbandalagið.
Wang minntist ekki á það beinum orðum í símtali sínu en sagði Lavrov að Kína talaði fyrir „jafnvægi“ í evrópsku öryggiskerfi sem ætti að ná í gegn með viðræðum.
Þá neitaði talsmaður utanríkisráðuneytis Kína ítrekað að kalla árás Rússa „innrás“ á blaðamannafundi í dag og sagði að ráðuneytið fylgdist með ástandinu. Þá hefur ráðuneytið ekki mælst til þess að kínverskir ríkisborgarar yfirgefi Úkraínu heldur einfaldlega mælt með því að þeir gæti vel að sér og lími límmiða með kínverska fánanum á bíla sína.