Leggja til að framferði Rússa verði fordæmt

Frá fundi Öryggisráðsins á mánudag.
Frá fundi Öryggisráðsins á mánudag. AFP

Bandaríkin og Albanía munu í nótt leggja fram ályktunartillögu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í tillögunni felst að öryggisráðið fordæmi Rússland fyrir framferði landsins á landamærum þess og Úkraínu. 

„Hún er næstum því tilbúin. Ég vona að við getum lagt hana fram á næstu klukkustundum eða dögum,“ sagði evrópskur diplómati við AFP.

Öryggisráðið kemur saman í nótt vegna ástandsins í Úkraínu og fylgst verður með fundinum á mbl.is.

Allar líkur á að hún verði felld

Í ályktunartillögunni er farið fram á að rússnesk yfirvöld verði fordæmd fyrir að viðurkenna sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Tillagan verður til umræðu í öryggisráðinu þar sem allar líkur eru á því að hún verði felld þar sem Rússar fara með neitunarvald. 

Tillagan gæti þá verið lögð fyrir allsherjaþing Sameinuðu þjóðanna þar sem ekkert ríki fer með neitunarvald, en ályktanir þingsins eru ekki bindandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert