Emmanuel Macron Frakklandsforseti fór fram á það að Vladimír Pútín Rússlandsforseti dragi til baka herlið sitt úr Úkraínu þegar leiðtogarnir ræddu saman símleiðis í dag.
Samkvæmt frönskum stjórnvöldum lagði Macron fram kröfu sína í kjölfar viðræðna við yfirvöld í Úkraínu.
„Eftir að hafa rætt við forseta Úkraínu og í samráði við hann, hringdi Macron forseti í Vladimír Pútín til að krefjast þess að hernaðaraðgerðum Rússlands í Úkraínu yrði hætt án tafar,“ segir í yfirlýsingu franskra stjórnvalda.
Í yfirlýsingunni segir einnig að Macron hafi hótað umfangsmiklum refsiaðgerðum.
Pútín segir aðra sögu af símtali leiðtoganna, en í yfirlýsingu yfirvalda í Kremlín segir að Pútín hafi veitt Macron tæmandi lista af ástæðum fyrir hernaðaraðgerðunum og að leiðtogarnir hafi ákveðið að ræða saman síðar.