Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í nótt, á öðrum neyðarfundi ráðsins á þremur dögum vegna yfirvofandi innrásar Rússlands í Úkraínu.
Yfirvöld í Úkraínu fóru fram á fundinn og nutu þau stuðnings ríkja á Vesturlöndum. Fundurinn hefst klukkan 2.30 að íslenskum tíma og er streymt í beinni hér að neðan.
Í fundarbeiðni sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum, Sergiy Kyslytsya, kemur fram að „bráð hætta“ sé á rússneskri innrás í Úkraínu.
Þá fór Kyslytsya fram á að fulltrúi Úkraínu fái að sitja fundinn og að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, fari yfir ástandið.
Eins og fyrri fundur ráðsins sem fram fór á mánudag verður honum stýrt af fulltrúa Rússlands, sem fer nú með forsæti í ráðinu.
Bandaríkin og Albanía gera ráð fyrir að leggja fram ályktunartillögu fyrir ráðið.
Í henni er farið fram á að rússnesk yfirvöld verði fordæmd fyrir að viðurkenna sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Tillagan verður til umræðu í ráðinu þar sem allar líkur eru á því að hún verði felld þar sem Rússar fara með neitunarvald.
Tillagan gæti þá verið lögð fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þar sem ekkert ríki fer með neitunarvald, en ályktanir þingsins eru ekki bindandi.