Forseti Litháen Gitanas Nauseda skrifaði í dag undir tilskipun sem lýsir yfir neyðarástandi í landinu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Tilskipunin gefur yfirvöldum meira svigrúm til þess að bregðast við ógnum gegn almannaöryggi og auka landamæraeftirlit.
Neyðarástandið tók gildi klukkan 11 í morgun og er í gildi til 10. mars hið minnsta. Nauseda boðaði jafnframt til neyðarfundar litháenska þingsins í dag.
Yfirvöld í bæði Litháen og Póllandi hafa farið fram á að 4. grein stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins verði virkjuð, en samkvæmt greininni skulu fulltrúar allra aðildarríkja koma saman á neyðarfundi sé nokkru aðildarríki ógnað.
Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins munu halda myndbandsfund á föstudagmorgun, en í yfirlýsingu bandalagsins fyrr í dag var því lýst yfir að bandalagið séu reiðubúið að verja sig gagnvart rússneskri ógn á aðildarríkin.