Pútín beri ábyrgð á stríði í Evrópu

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins.
Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. AFP

„Við fordæmum þessa villimannslegu árás og aumar tilraunir til að réttlæta hana,“ sagði Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, um innrás Rússa inn í Úkraínu í nótt.

Hún sagði að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, bæri ábyrgð á því að aftur væri stríðsástand í Evrópu. Evrópusambandið stæði með Úkraínu og íbúum landsins. Takmark Rússa væri ekki að ráðast á Úkraínu eða héruð í landinu, heldur ógnuðu þeir stöðugleika í Evrópu allri og yrðu að bera ábyrgð á því.

„Síðar í dag munum við kynna refsiaðgerðir sem leiðtogar Evrópuríkja þurfa að samþykkja,“ sagði von der Leyen og bætti við að þar með yrði efnahagur Rússa veiktur verulega. Þær refsiaðgerðir muni hafa mikil áhrif á stjórnvöld í Rússlandi og getu þeirra til að fjármagna stríðsrekstur.

Hvetur Rússa til að draga herlið til baka

„Við vitum að milljónir Rússa vilja ekki þetta stríð. Pútín er að reyna að leita aftur til þess tíma þegar Rússar voru stórveldi en á sama tíma ógnar hann öryggi borgara sinna,“ sagði von der Leyen og hélt áfram:

„Ég hvet Rússa til að stöðva þetta ofbeldi á stundinni og draga herlið sitt frá Úkraínu. Við munum ekki láta Pútín rífa niður frið og stöðugleika sem hefur verið í Evrópu undanfarna áratugi,“ sagði von der Leyen og bætti við að einræðisherrar hræðist sterkt lýðræðir, eins og er í löndum ESB:

„Evrópusambandið stendur með Úkraínu og íbúum þess. Við munum halda áfram að styðja þau. Úkraína mun sigra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert