Skriðdrekar rúlla yfir landamærin

Frá æfingu rússneska hersins fyrr í vikunni.
Frá æfingu rússneska hersins fyrr í vikunni. AFP

Volodimír Zelenskí forseti Úkraínu segir árás Rússlands beinast að hernaðarinnviðum lands síns og landamæravörðum. Hvetur hann almenna borgara til að örvænta ekki og lofar sigri í baráttunni.

Í ávarpi nú að morgni í Kænugarði kvaðst Zelenskí hafa lýst yfir herlögum í landinu. Sagði hann innrás Rússlands í landið tilhæfulausa með öllu.

„Við, ríkisborgarar Úkraínu, höfum verið að ákveða okkar eigin framtíð frá árinu 1991,“ bætti hann við og vísaði til ársins þegar Sovétríkin féllu.

„En núna, það sem verið er að ákveða er ekki aðeins framtíð okkar lands, heldur einnig framtíð þess hvernig Evrópa mun lifa.“

Par ræðir saman á neðanjarðarlestarstöð í Kænugarði, þar sem margir …
Par ræðir saman á neðanjarðarlestarstöð í Kænugarði, þar sem margir hafa leitað skjóls í nótt og í morgun. AFP

Stórskotahríð á landamærum

Á meðan Zelenskí ávarpaði þjóð sína hefur myndefni fengist af rússneskum skriðdrekum þar sem þeir rúlla yfir landamærin við Hvíta-Rússland.

Stórskotahríð dynur nú á Úkraínu meðfram landamærunum í norðri, við bæði Rússland og Hvíta-Rússland.

Frá þessu greinir landamæravarsla Úkraínu og tekur fram að herlið Úkraínu skjóti til baka.

Tilkynningin kemur á sama tíma og embættismaður innanríkisráðuneytisins segir úkraínsku borgina Shchastya hafa fallið í hendur aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins, sem studdir eru af Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert