Til orðaskipta kom á milli Vasily Nebenzya, sendiherra Rússlands og forseta Öryggisráðsins, og Sergiy Kyslytsya, sendiherra Úkraínu, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nótt.
Boðað var til neyðarfundar ráðsins vegna stigmögnunar ástandsins í Úkraínu. Á meðan á fundinum stóð tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti að hann hefði fyrirskipað innrás rússneska hersins í Úkraínu.
Í ræðu sinni sagði Nebenzya eftirsjá að því að yfirvöld í Kænugarði hefðu ekki látið af „ögrunum“ þrátt fyrir viðvaranir. Sakaði hann úkraínsk yfirvöld um að grafa undan tveimur „sjálfstæðum“ svæðum aðgerðasinna, Donetsk og Luhansk, í skjóli ríkja Vesturlanda.
Sakaði hann úkraínsk yfirvöld, og yfirvöld þeirra ríkja sem lýst hafa yfir stuðningi við Úkraínu, um að hundsa hagsmuni íbúa svæðanna tveggja.
Þá fór hann hörðum orðum um yfirvöld í Úkraínu og sagði hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu beinast að stjórnvöldum en ekki almennum borgurum. Sakaði hann úkraínsk stjórnvöld og stuðningsmenn þeirra um nota íbúa svæðanna tveggja sem peð í heimspólitískum leik til þess að grafa undan styrk Rússlands.
„Rót þeirra erfiðleika sem uppi eru í Úkraínu í dag eru gjörðir Úkraínu sjálfrar,“ sagði Nebenzya.
Sagðist hann ekki geta veitt frekari upplýsingar um aðgerðir Rússa í Úkraínu en að þær væru viðbrögð Rússa við „þjóðarmorði“ úkraínska yfirvalda í Donetsk.
Sergiy Kyslytsya, sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum sem fór fram á fund öryggisráðsins, hóf ávarp sitt á fundinum með því að lýsa því yfir að ræða sem hann hafði undirbúið í aðdraganda fundarins væri þegar orðin „gagnslaus“ í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað á meðan á fundinum stóð.
„Þegar ég kom hingað fyrir um klukkustund ætlaði ég mér að biðja sendiherra Rússlands um að staðfesta opinberlega að rússneski herinn muni ekki hefja skothríð á úkraínsk skotmörk í dag. Það varð gagnlaust fyrir 48 mínútum þegar forseti þinn lýsti yfir stríði á hendur Úkraínu,“ sagði Kyslytsya og ávarpaði rússneskan kollega sinn.
Sagði hann að ef Nebenzya gæti ekki lofað því að Rússar muni ekki fremja árásir á úkraínsk skotmörk ætti rússneska sendinefndin þegar í stað að stíga til hliðar og láta eftir forsæti öryggisráðsins til „lögmæts“ aðildarríkis sem virði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Kyslytsya sagði það of seint að tala um stigmögnun ástandsins í Úkraínu og að nauðsynlegt væri að boða til nýs neyðarfundar svo að hægt væri að taka ákvörðun um aðgerðir.
„Þið lýstuð yfir stríði og þá er á ábyrgð þessa ráðs að stöðva þetta stríð,“ sagði Kyslytsya við lítinn fögnuð Nebenzya.
Kyslytsya átti síðan síðasta orð kvöldsins þegar hann flutti síðara ávarp sitt.
Varaði hann við því að stríðsglæpamenn færu ekki í gegnum hreinsunareld, heldur færu þeir beinustu leið til helvítis.