Áhyggjur fara vaxandi vegna öryggis þeirra fimmtán kjarnaofna sem til staðar eru í Úkraínu, eftir því sem allsherjar innrás rússneska hersins vindur áfram.
Sérfræðingar segja kjarnaofnana, í alls fjórum orkuverum sem dreifð eru um landið, vera búna fjölda varúðarráðstafana sem eiga að koma í veg fyrir að þeir bræði úr sér.
Samt sem áður, í þeirri stærðarinnar styrjöld sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi hrundið af stað, þá sé aukin hætta á að reyna muni á þær ráðstafanir.
Hærri gildi geislavirkni mældust í gær frá Tsjernóbyl, þar sem mesta kjarnorkuslys sögunnar átti sér stað árið 1986, en rússneskt herlið náði þar völdum eftir árás í gær.
Það sem eftir er af kjarnakljúfi orkuversins er grafið undir steinsteypu, en verið er einnig notað til að geyma kjarnorkuúrgang.
Oksana Markarova, sendiherra Úkraínu í Washington, sagði í dag að ábyrgðin á verinu sé nú í höndum Rússlands. Benti hún á að ströngum reglum um orkuverið væri ekki framfylgt nú eftir að rússneski herinn tók það yfir.
Þá sakaði hún herliðið um að halda 92 starfsmönnum versins í gíslingu.
Úkraínsk yfirvöld telja hærri gildi geislavirkni mega rekja til umferðar rússneskra herbifreiða á jarðvegi sem enn er mengaður vegna slyssins árið 1986, samkvæmt umfjöllun Guardian.