Breskar hersveitir munu ekki berjast gegn Rússum

Wallace segir Breta hafa gerst það næst besta, að þjálfa …
Wallace segir Breta hafa gerst það næst besta, að þjálfa úkraínska hermenn. AFP

Breskar hersveitir verða ekki sendar til að berjast gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Þetta staðfesti Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, í morgun. BBC greinir frá.

Hann sagði að bein þátttaka í aðgerðum gæti leitt af sér evrópskt stríð. Úkraína væri ekki aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) en ef ráðist yrði á breskar hersveitir væri litið á það sem árás á bandalagið.

Síðastliðinn mánuð hafa ráðherrar í bresku ríkistjórnarinnar ítrekað sagt að ólíklegt væri að breskar hersveitir yrðu sendar á átakasvæðið í Úkraínu. Wallace sagði í samtali við BBC að þeirri stefnu yrði viðhaldið. Hins vegar hefðu Bretar gert það næst besta sem þeir gátu gert, að sinna þjálfun yfir 20 þúsund úkraínskra hermanna, þannig þeir búi yfir færni til að drepa. Færni sem þeir séu að beita akkúrat núna.

Wallace sagði jafnframt að Rússar hefðu ekki náð meginmarkmiði sínu á fyrsta degi innrásarinnar í Úkraínu og að 450 rússneskir hermenn hefðu látið lífið.

Yfir 20 þúsund úkraínskir hermenn hafa fengið þjálfun hjá Bretum.
Yfir 20 þúsund úkraínskir hermenn hafa fengið þjálfun hjá Bretum. AFP

1.000 manna herlið í viðbragðsstöðu 

James Heappey, hernaðarmálaráðherra Breta, tilkynnti þinginu það í dag að fleiri hermenn yrðu sendir til Eistlands fyrr en til stóð, í þeim tilgangi að styðja við hersveitir NATO. Um 1.000 manna herlið er í viðbragðsstöðu til að aðstoða nágrannalönd Úkraínu við að taka við þeim sem flýja land vegna stríðsins. Heappey ítrekaði einnig þá afstöðu Wallace að bein þátttka í stríðinu stæði ekki til.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, ræddu saman í morgun og hét sá fyrrnefndi frekari stuðningi á næstu dögum. Zelenski sagði Úkraínu þurfa á stuðningi bandamanna halda nú sem aldrei fyrr og kallaði eftir frekari refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert