Bretar vilja banna Rússa frá SWIFT

Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands.
Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. AFP

Varnarmálaráðherra Bretlands, Ben Wallace segir að Bretar muni vinna að því í „allan dag” að banna Rússa frá alþjóðlega greiðslukerfinu SWIFT þó aðrar þjóðir séu tregar til þess. The Telegraph greinir frá.

Hann telur Evrópusambandið mótfallið því að banna Rússland frá greiðslukerfinu þar sem ESB-löndin kaupi gas af Rússum.

„Því miður er SWIFT kerfið ekki á okkar valdi. Þetta er ekki einhliða ákvörðun,“ sagði Wallace í breska útvarpsþættinum Today á BBC.

Wallace sagði að kerfið væri notað „til að flytja peninga“ og útskýrði: „Þegar þú borgar Rússum fyrir gasið þeirra fer það líklega í gegnum SWIFT kerfið.”

Samkvæmt upplýsingum frá Downing-Stræti mun Boris Johnson leggja til við bandamenn sína á NATO-leiðtogafundi í dag að Rússar skuli bannaðir frá SWIFT greiðslukerfinu.

Talsmaður forsætisráðherra var spurður hvort Bretland myndi þrýsta á um refsiaðgerðirnar og hann sagði: „Þú munt hafa heyrt ummæli forsætisráðherrans um þetta í gær, við munum halda áfram að vinna með bandamönnum til að reyna að banna Rússa frá SWIFT.

Frakkar skipt um skoðun

Bruno Le Maire, fjár­málaráðherra Frakk­lands, sagði í gær að það að svipta Rússa SWIFT-banka­kerf­inu væri enn mögu­leiki en að það væri al­gjört neyðarúr­ræði. Því hefði ákvörðun um slíkt ekki enn verið tekin.

Í dag sagði hann þó Frakka hlynnta því að útiloka Rússland frá SWIFT greiðslukerfinu en sagði önnur Evrópuríki hafa verið efins um að nota slík „fjárhagsleg kjarnorkuvopn.“

Þá sagði hann að möguleikinn á að útiloka Rússa frá SWIFT yrði veginn á næstu tímum.

Verði að líta á áhrifin á aðrar þjóðir

Sendiherra Evrópusambandins í Bretlandi, Joao Vale de Almeida, sagði lönd eins og Bretland sem vildu banna Pútin frá alþjóðlega greiðslukerfinu yrðu að líta að áhrif þess á aðrar þjóðir.

„Þær ráðstafanir sem við erum að grípa til hafa gríðarleg áhrif á fjármálageirann í Rússlandi. Þær hafa áhrif á 70 prósent bankakerfisins og snerta hjarta ríkisfyrirtækjanna sem fjármagna stríðsreksturinn,” sagði Vale de Almeida og bætti við:

„Sérhver aðgerð hefur endurkomuáhrif. Við þurfum líka að skoða það."

Forsætisráðherra Írlands, Micheal Martin, hefur einnig varið þá ákvörðun að banna ekki Rússa frá greiðslukerfinu. „Fólk hefur mismunandi sjónarhorn á virkni eða gildi SWIFT í sjálfu sér, svo ég held að við ættum ekki að einbeita okkur eingöngu að SWIFT.”

ESB vilja ekki banna Rússa að svo stöddu

ESB tilkynnti um aðra lotu refsiaðgerða í gærkvöldi. Viðurlögin sem tilkynnt voru hafa áhrif á margs konar geira, þar á meðal fjármál, orku, útflutning, vegabréfsáritanir og tiltekna einstaklinga. Hins vegar ákváðu þjóðhöfðingjar ESB að banna Rússa ekki frá SWIFT kerfinu að svo stöddu.

Til að bregðast við ákvörðun ESB sagði Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, að þeir sem neituðu að loka á aðgang Rússa að SWIFT væru með jafn mikið blóð á höndunum og Rússar sem réðust inn í land hans.

Bannið bitni líka á evrópskum kröfuhöfum og lánveitendum

ESB-ríkin eru á meðal þeirra þjóða sem hafa hvað mest hikað við að banna Rússland frá SWIFT, þar sem lönd eins og Þýskaland eru lykilviðskiptalönd Rússlands og þurfa að hafa aðgang að Swift vegna greiðslna.

Þrátt fyrir að aðgerðin myndi bitna hart á rússneskum bönkum myndi bannið einnig þýða að evrópskir kröfuhafar gætu átt í erfiðleikum með að fá peningana sína til baka frá Rússlandi.

Gögn frá Alþjóðagreiðslubankanum sýna að af öllum erlendum bönkum séu það evrópskir lánveitendur sem munu tapa hvað mestum peningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert