Rússneskar hersveitir sækja af krafti inn í Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, en íbúar hafa verið hvattir til að halda sig innandyra og útbúa Molotov-kokteila til varnar. Fjöldi fólks reynir þó að koma sér út úr borginni en langar raðir hafa myndast og fáir vita hversu örugg leiðin er.
Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi í morgun að Rússar séu farnir að beina vopnum sínum að íbúðabyggðum og frásagnir erlendra fjölmiðla virðast staðfesta það.
Talið er að 127 almennir borgarar hafi látið lífið í átökunum.
Crater left by an explosion just beside an apartment block in Kyiv.
— Emma Graham-Harrison (@_EmmaGH) February 25, 2022
Locals say there are no military targets in the area. Windows at a nearby kindergarten and tax office blown out too. pic.twitter.com/6d1ej1Goau
Hersveitir Rússa sækja að Kænugarði úr norðri og austri en almennir borgarar hafa reynt að flýja til vesturs; í átt til Póllands.
Óskar Hallgrímsson, sem búsettur er í miðborginni, heyrir stórskotahríð og skothvelli frá íbúð sinni og segir því greinilegt að rússneskar hersveitir séu komnar langt inn í borgina.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði á blaðamannafundi í Moskvu í morgun að ætlunin væri ekki að hertaka Úkraínu.
Ætlunin væri að „frelsa Úkraínu undan kúgun“ og sagði hann rússnesk stjórnvöld tilbúin til viðræðna við úkraínsk, gegn því að Úkraínuher leggi niður vopn.