Fregnir berast af „vofu“ í Kænugarði

Úkraínska herflugvél ber hér við himin.
Úkraínska herflugvél ber hér við himin. AFP

Óstaðfestar fregnir hafa borist af úkraínskum orrustuflugmanni sem mun hafa skotið niður allt að sex rússneskar flugvélar á fyrsta degi styrjaldarinnar sem nú er hafin í Úkraínu eftir innrás rússneska hersins í landið.

Flugmaður þessi er þegar orðin alþýðuhetja í Úkraínu og hefur hlotið nafngiftina „Vofan í Kænugarði“.

Er hann talinn hafa skotið niður fjórar orrustuþotur, tvær af gerðinni Su-35, eina af gerðinni Su-27 og loks aðra af gerðinni MiG-29. Að auki mun hann hafa skotið niður tvær af flugvélar af gerðinni Su-25.

Brak flugvélar sem brotlenti í Kænugarði snemma í morgun.
Brak flugvélar sem brotlenti í Kænugarði snemma í morgun. AFP

Misst tíu flugvélar og sjö þyrlur

Úkraínsk yfirvöld hafa ekki staðfest tilvist þessa flugmanns og afrek hans, en aðstoðarvarnarmálaráðherra landsins sagði í dag að rússneski herinn hefði misst tíu flug­vél­ar og sjö þyrl­ur frá því innrásin hófst.

Ef rétt reynist er um að ræða fyrsta flugásinn á þessari öld, en til að teljast flugás þarf flugmaður að hafa skotið niður fimm flugvélar óvinarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert