Evrópusambandið samþykkti í dag frekari efnahagsþvinganir gagnvart Rússlandi vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu. Samþykkti sambandið meðal annars að frysta allar eignir sem tengjast Vladimir Pútín, forseta Rússlands og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði við fréttamenn í Brussel í dag að með þessu væri ekki aðeins verið að beita efnahagslegum og fjárhagslegum þvingunum gegn „kerfi Pútíns“ heldur líka að beita sér gagnvart þeim sem væru kjarni kerfisins.
Þá beinast aðgerðirnar einnig að fjármálakerfinu, eins og fyrri aðgerðir, sem og orkugeiranum og samgöngugeiranum. Eiga aðgerðirnar meðal annars að koma í veg fyrir að Rússar geti geymt stórar upphæðir á reikningum innan Evrópusambandsins og þá er listi yfir Rússa sem er meinað að koma til Evrópusambandsríkja lengdur til muna.
Hins vegar voru engar ákvarðanir teknar um að meina Rússum aðgangi að alþjóðagreiðslukerfinu SWIFT. Var slík aðgerð meðal annars notuð með miklum árangri gegn Íran á sínum tíma.