Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í morgun að rússnesk stjórnvöld freistuðu þess að „frelsa Úkraínu undan kúgun“ á sama tíma og rússneskar hersveitir sækja að höfuðborginni Kænugarði úr norðri og austri.
Á blaðamannafundi í Moskvu sagði Lavrov að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði ákveðið að rússneski herinn þyrfti að skerast í leikinn til að afvopna og „afmá nasismann“ þar í landi.
Þegar því væri lokið gætu Úkraínumenn sjálfir ákveðið framtíð sína, sagði Lavrov.
Hann sagði að ætlunin sé ekki að hertaka Úkraínu en bætti þó við að rússnesk stjórnvöld hafi aldrei viðurkennt ríkisstjórn Úkraínu sem lýðræðislega stjórn landsins. Rússnesk stjórnvöld væru tilbúin til viðræðna, gegn því að Úkraínuher leggi niður vopn.