Markmið rússneskra hersveita með innrás í Kænugarð [e. Kyiv] er að „knésetja“ Úkraínu og hrekja ríkisstjórnina úr landi. Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Moskvu, segir útlitið ekki gott fyrir Úkraínumenn sem eru nokkurn veginn einir á báti í vörn sinni og telur hann nánast alveg öruggt að Rússar beri sigur úr býtum. Efnahagsaðgerðir Vesturlanda virðast lítið bíta á stjórnvöld í Rússlandi og eru þær veikt tæki, sérstaklega þar sem þeim hefur helst verið beitt eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
„Þeir stefna á Kyiv og þar með er ljóst að það á að knésetja landið og hrekja ríkisstjórnina frá völdum eða úr landi, hvernig sem það fer,“ segir Albert í samtali við mbl.is. „Það hefur alltaf verið markmiðið að ráða því hvert Úkraína getur stefnt, hafa algjörlega tögl og hagldir í þessu landi. Núna komust þeir á það stig af einhverjum ástæðum að þeir töldu sig ekki geta það nema með því að ráðast inn og fara að höfuðborginni og eina markmiðið með því er að losna við ríkisstjórnina.“
Undanfarið hafa hersveitir barst um tvo flugvelli við Kænugarð. Það er lykilatriði fyrir rússneskar hersveitir að ná þessum flugvöllum á sitt vald. „Þeir þurfa að taka þessa flugvelli til þess að koma flutningaflugvélum og þyrlum þangað inn. Síðan eru vísbendingar um það að landherlið sé á leiðinni, væntanlega um leið og þeir telja sig hafa möguleika á að taka þessa flugvelli þá kemur meira af fallhlífaliði,“ segir Albert. „Þetta er hefðbundin aðferð við að ráðast inn í lönd og er allt eftir bókinni.“
Evrópusambandið samþykkti í gær að ganga lengra en áður hvað varðar efnahagslegar refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi. Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, hefur sagt að sambandið þurfi að ganga lengra í þeim efnum. Albert segir að efnahagsaðgerðir séu veikt tæki í grunninn.
„Fælingarkenningin svokallaða gerir ráð fyrir því að það sé útskýrt fyrir andstæðingi fyrir fram, ekki eftir á, hvað komi fyrir hann ef hann gerir það sem má ekki gera. Þar hefur vantað mjög mikið upp á,“ segir Albert en tekur fram að það hefði ekki endilega breytt miklu um innrás að herða refsiaðgerðir fyrr. Þá hafi þær refsiaðgerðir sem komið hefur verið á slæmar afleiðingar fyrir Rússland. „En þetta hefur ekki áhrif á stefnu þeirra og ef til vill var aldrei möguleiki að hafa áhrif á stefnu þeirra með efnahagsþvingunum.“
Það er ekki „hlaupið að því“ að skaða Rússa, að sögn Alberts. Áfram munu þeir eiga blómleg viðskipti við tvær fjölmennustu þjóðir heims, Kínverja og Indverja.
„[Rússar] standa mjög sterkt þegar kemur að úthaldi varðandi efnahagsþvinganir. Þeir skulda mjög lítið, eiginlega ekkert í útlöndum. Ein ráðstöfun [ESB] er að gera þeim erfitt fyrir að slá lán á alþjóðamörkuðum en þeir eru ekkert í stórum stíl í þeim bransa. Þeir eiga feykilega mikla varasjóði og þeir græða á hverjum degi með olíuverðshækkunum,“ segir Albert.
Þó að hann telji efnahagsaðgerðirnar veik verkfæri þá segir hann að staðan sé þröng og því geti þjóðir Evrópu lítið annað gert en að grípa til þeirra þar sem búið sé að útiloka alla hernaðarlega aðstoð við Úkraínu. „Það er bara mjög erfitt að eiga við þetta. Það sem [ESB] ákvað í gær og tilkynnti mun ekki hafa nein áhrif á Rússland.“
Ekki er útlit fyrir að Bandaríkin komi Úkraínu til hjálpar með herliði. „Úkraína hefur ekki þá beinlínis þýðingu fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna að það verði farið í hernaðaraðgerðir til þess að styðja þá,“ segir Albert.
Aðspurður segir Albert að Úkraínumenn séu nokkurn veginn einir á báti. „Núna verður mjög erfitt að koma til þeirra einhverjum vopnum. Það er ekki hægt með flugvélum, Rússar ráða öllu yfir Úkraínu, það er ekki hægt á sjó, því Rússar ráða öllu aðgengi á Svartahafi að Úkraínu. Ætla menn að fara að keyra vopn inn í Úkraínu? Á því hef ég enga trú. Það væri stríðsaðgerð. Henni yrði svarað með því að ráðast á bílana.“
Hvernig eru Úkraínumenn búnir til þess að verjast?
„Það liggur fyrir að megnið af Úkraínuher hefur verið í austurhlutanum vegna þeirra átaka sem þar hafa geisað í átta ár. Meginþunginn er ekki nálægt Kyiv. Ég geri ráð fyrir því að grundvallaratriði í innrásinni og planinu sé að koma í veg fyrir að hægt verði að færa úkraínskt herlið vestur í áttina að Kyiv,“ segir Albert. „Síðan eru Rússar með algjöra yfirburði í lofti sem er auðvitað grundvallaratriði. Síðan fer þetta eftir því hvernig Úkraínumenn bregðast við, hvað þeir ætla að verjast af mikilli hörku og hvað menn sætta sig við í mannfalli.“
Albert telur ljóst að ef bardagar fara af stað í úkraínskum borgum muni það enda illa. „Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það að það verður mikið tjón ef það á að fara að berjast um þessar borgir í alvöru,“ segir Albert. „Þetta á náttúrulega eftir að skýrast allt saman en þetta lítur ekki vel út, alls ekki.“
Spurður um framhaldið segir Albert: „Um leið og styrjaldir hefjast verður til svo mikil óvissa um mörg einstök atriði en það er enginn óvissa með markmiðið með þessum hernaðaraðgerðum og það er engin óvissa hvað varðar það að Rússar hafa mikla hernaðarlega yfirburði. Þessu líkur með sigri Rússa, það er næstum því alveg öruggt.“