Sögðu herskipi að fara til fjandans og voru drepnir

Frá mótmælum í Tókíó gegn stríðinu.
Frá mótmælum í Tókíó gegn stríðinu. AFP

13 úkraínskir varðmenn á Snákaeyju, lítilli úkraínskri eyju í Svartahafi, neituðu að gefast upp fyrir rússneskum hermönnum sem þangað komu á skipi. Úkraínsku varðmennirnir stóðu á sínu og voru drepnir af rússnesku hersveitinni í kjölfarið. 

Hljóðupptaka af síðustu orðum varðanna hefur farið í dreifingu á Twitter, TikTok og öðrum samfélagsmiðlum. 

BBC greinir frá

„Rússneska herskip, farðu til fjandans

Hermaður í rússneska skipinu segir við úkraínsku hermennina: „Ég legg til að þið gefist upp, annars mun ég skjóta, skiljið þið það?“

Úkraínsku varðmennirnir segja þá: „svona endar þetta“, áður en þeir svara rússneska hermanninum með setningunni: „Rússneska herskip, farðu til fjandans.“

Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, lofaði hugrekki varðmannanna og sagði að þeir verði allir heiðraðir sem stríðshetjur. 

„Þeir dóu hetjudauða en gáfust ekki upp,“ sagði Zelenskí um varðmennina. 

„Þeir verða allir heiðraðir. Við munum minnast þeirra að eilífu sem gáfu Úkraínu líf sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert