Stefán Gunnar Sveinsson
Allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu hófst í fyrrinótt kl. 4 að staðartíma, eða kl. 2 að íslenskum tíma. Innrás hófst með víðtækum árásum á flestallar borgir Úkraínu með annaðhvort eldflaugum eða fallbyssum, áður en landher Rússa sótti fram úr norðri, austri og suðri.
Á kortinu hér að ofan má sjá myndrænt hvernig Rússar réðust inn. Lengri fréttaskýringu um málið má nálgast í Morgunblaðinu í dag.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna boðaði til neyðarfundar kl. 2:30 að íslenskum tíma vegna aðgerða Rússa, en einsýnt þótti um daginn að innrásin, sem vestræn ríki höfðu varað við, myndi hefjast þá um nóttina.
Um svipað leyti og öryggisráðið hóf fund sinn flutti Vladimír Pútín Rússlandsforseti „neyðarávarp“, sem sjónvarpað var í rússnesku sjónvarpi, en þá var klukkan um 5:45 að morgni í Rússlandi. Ávarpið virtist af fötum forsetans að dæma hafa verið tekið upp á sama tíma og ræða Pútíns á mánudaginn, þar sem hann hélt því fram að Úkraína ætti ekki tilkall til að vera sjálfstætt ríki.
Í ræðu sinni sagði Pútín að hann hefði tekið ákvörðun um að hefja „sérstaka hernaðaraðgerð“ til þess að verja Donbass-héruðin fyrir árásum Úkraínumanna. Sagði hann að markmið stríðsins væri að „afhervæða“ og „afnasistavæða“ Úkraínu.