Vilja leyfa útflutning lúxusvara til Rússlands

Versace er á meðal ítalskra lúxusmerkja sem gætu þurft að …
Versace er á meðal ítalskra lúxusmerkja sem gætu þurft að hætta útflutningi til Rússlands. AFP

Ýmis lönd Evrópu búa sig nú undir afleiðingar refsiaðgerða gegn Rússum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, ekki síst í fjármálageiranum. Ítalíu hefur talað fyrir vægari aðgerðum sem hafi takmörkuð áhrif á rússneska banka. Austurríki hefur tekið í svipaða strengi, en austurríski Raiffeisen-bankinn heldur úti hundruðum útibúa í Rússlandi. 

Ítölsk yfirvöld hafa einnig talað fyrir því að lúxusvarningur á borð við vörur Gucci og Prada verði undanþeginn aðgerðapakka Evrópusambandsins, svo að áfram sé hægt að flytja út vörur lúxusmerkja til Rússlands. Yfirvöld í Belgíu hafa sömuleiðis talað fyrir því að gimsteinar verði undanþegnir aðgerðunum, en Antwerpen er ein stærsta miðstöð demantsverslunar í Evrópu. 

Josep Borrell, yfirmaður utanríkisstefnu Evrópusambandsins, vakti athygli á mögulegum takmörkunum á útflutningi lúxusvara sem eru vinsælar meðal auðugra Rússa og sömuleiðis mikilvægar útflutningslöndunum, í Tísti sem hann eyddi síðan í kjölfarið. „Ekki lengur: verslunarferðir til Mílanó, skemmtiferðir til Saint Tropez, demantar frá Antwerpen,“ skrifaði Borrell. 

Donald Tusk, sem er Pólverji og fyrrverandi forseti Evrópuráðsins, hefur gagnrýnt helstu ríki Evrópusambandsins fyrir að ráðast ekki í þyngri refsiaðgerðir en hefur verið gert eða áformað, m.a. að rússneskum bönkum hafi ekki verið vísað úr SWIFT. 

„Í þessu stríði er allt raunverulegt: Brjálæði og grimmd Pútín, úkraínsk fórnalömb, sprengjuregn á Kænugarð. Aðeins refsiaðgerðir okkar eru ekki raunverulegar. Þessar evrópsku ríkisstjórnir, sem hafa neitað erfiðum ákvörðun (t.d. Þýskaland, Ungverjaland og Ítalía), hafa orðið sér til skammar,“ sagði Tusk. 

Frétt New York Times. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert