Ýmis lönd Evrópu búa sig nú undir afleiðingar refsiaðgerða gegn Rússum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, ekki síst í fjármálageiranum. Ítalíu hefur talað fyrir vægari aðgerðum sem hafi takmörkuð áhrif á rússneska banka. Austurríki hefur tekið í svipaða strengi, en austurríski Raiffeisen-bankinn heldur úti hundruðum útibúa í Rússlandi.
Ítölsk yfirvöld hafa einnig talað fyrir því að lúxusvarningur á borð við vörur Gucci og Prada verði undanþeginn aðgerðapakka Evrópusambandsins, svo að áfram sé hægt að flytja út vörur lúxusmerkja til Rússlands. Yfirvöld í Belgíu hafa sömuleiðis talað fyrir því að gimsteinar verði undanþegnir aðgerðunum, en Antwerpen er ein stærsta miðstöð demantsverslunar í Evrópu.
Josep Borrell, yfirmaður utanríkisstefnu Evrópusambandsins, vakti athygli á mögulegum takmörkunum á útflutningi lúxusvara sem eru vinsælar meðal auðugra Rússa og sömuleiðis mikilvægar útflutningslöndunum, í Tísti sem hann eyddi síðan í kjölfarið. „Ekki lengur: verslunarferðir til Mílanó, skemmtiferðir til Saint Tropez, demantar frá Antwerpen,“ skrifaði Borrell.
Donald Tusk, sem er Pólverji og fyrrverandi forseti Evrópuráðsins, hefur gagnrýnt helstu ríki Evrópusambandsins fyrir að ráðast ekki í þyngri refsiaðgerðir en hefur verið gert eða áformað, m.a. að rússneskum bönkum hafi ekki verið vísað úr SWIFT.
„Í þessu stríði er allt raunverulegt: Brjálæði og grimmd Pútín, úkraínsk fórnalömb, sprengjuregn á Kænugarð. Aðeins refsiaðgerðir okkar eru ekki raunverulegar. Þessar evrópsku ríkisstjórnir, sem hafa neitað erfiðum ákvörðun (t.d. Þýskaland, Ungverjaland og Ítalía), hafa orðið sér til skammar,“ sagði Tusk.
Frétt New York Times.