„Ferðalagið var lengsta umferðarteppa sem ég hef upplifað á ævinni, við sátum í henni í rúmlega sólarhring,“ segir Ingvar Haukur Guðmundsson, tökumaður RÚV, í samtali við mbl.is.
Hann er staddur í Úkraínu ásamt Ingólfi Bjarna Sigfússyni fréttamanni RÚV. Félagarnir ákváðu að koma sér frá Kænugarði í gær og ferðuðust til borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu.
Borgin er stutt frá landamærum Póllands en alls hafa 100 þúsund farið yfir landamærin, frá Úkraínu til Póllands síðan innrás Rússa hófst.
Ingvar segir símasamband hafa verið takmarkað og sömuleiðis hafi verið erfitt að finna eitthvað að borða á leiðinni. Þá var sérstaklega erfitt að fá bensín.
„Það var mjög mikið vesen að fá bensín og við þurftum að eyða miklum tíma í að fá það. Á einum stað voru skammtaðir þrettán lítrar á bíl og á öðrum tuttugu á bíl.“
„Við mættum úkraínska hernum á leiðinni í áttina að borginni. Á meðan við sátum í bílnum heyrðum við sprengjudrunurnar. Þegar bílar þeirra keyrðu fram hjá þá flautuðu bílarnir og fögnuðu þeim ákaft,“ segir Ingvar.
Félagarnir eru komnir með íbúð í Lviv. Að sögn Ingvars er flest lokað þar, en þó ekki eins og í Kænugarði.
„Það er eitthvað af borgarlegum hermönnum hér á rölti. Við fórum í matvöruverslun í dag og það var allt frekar rólegt þar. En það er rosa mikið lokað, einstaka matarstandar og verslanir eru opnar.“
Ingvar og Ingólfur ætla að hvíla sig núna eftir ferðalagið, svo munu þeir meta stöðuna varðandi áframhaldandi ferðalag í vesturátt.