Sókn rússneska hersins að helstu borgum Úkraínu, einkum að Kænugarði, hefur verið hægari en við mátti búast þar sem úkraínski herinn hefur veitt harðari mótspyrnu en reiknað var með.
Þrátt fyrir yfirgnæfandi forskot rússneskra hersveita, hvað mannafla og vígbúnað varðar, hefur hægt verulega á hröðum ávinningum Rússa og hinn hraði og öruggi sigur, sem Vladimír Pútín er sagður hafa reiknað með, er ekki enn í hendi.
Þetta hefur fréttastofa NBC eftir háttsettum embættismanni innan bandaríska hersins.
Þrátt fyrir stífa sókn Rússa að helstu borgum Úkraínu hafa engar þeirra fallið í hendur Rússa enn sem komið er.
Loftvarnir Úkraínumanna virðast halda þrátt fyrir að hafa verið skotmörk eldflaugaárása, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska hernum.