„Núna eftir að myrkur skall á byrjuðu árásirnar aftur og maður heyrir sprengjur og byssuhvelli í fjarska,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður, sem búsettur er í Kænugarði, í samtali við mbl.is.
Hann segir að dagurinn hafi verið rólegur frá því að birti í morgun og lítið hafi breyst, „fyrir utan fregnir sem maður er að fá af hetjudáðum landhersins og almennra borgara.“
„Við fórum í búðina og náðum okkur í vistir. Það var verið að raða í hillur þannig að það er einhver vörudreifing,“ segir Óskar og bætir við að einungis matvörubúðir og apótek séu opin.
Óskar segir að borgin sé nánast mannlaus.
Í miðborginni flýr fólk í neðanjarðarlestarstöðvar er viðvörunarbjöllur hljóma.
„Sumir bara hoppa þarna niður á meðan bjöllurnar eru á fullu en sumir eru með dýnur og teppi sem þeir sofa á. Það er líka eitthvað um fólk sem er þarna yfir nóttina þar sem þetta er öruggasti staðurinn til að vera á upp á loftárásir að gera,“ segir hann og bætir við að stöðvarnar myndu líklega standa af sér kjarnorkuárás.
Er mbl.is heyrði í Óskari var hann að elda kvöldmat. Hann sagði að hjónin myndu síðan borða saman í dimmu eldhúsi þar sem fólki er ráðlagt að hafa sem fæst ljós kveikt til að draga ekki að sér athygli landgönguliða.
„Við erum róleg og slök og höfum það bærilegt miðað við aðstæður.“