Rússar beittu neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld þegar kosið var um ályktunartillögu Bandaríkjanna, um að fordæma hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu og krefjast þess að herlið Rússlands verði dregið úr landinu.
Ellefu af þeim fimmtán aðildarríkjum sem eru með fulltrúa í ráðinu kusu með tillögunni, sem var auk Bandaríkjanna lögð fram af Albaníu.
Kína, Indland og Sameinuðu arabísku furstadæmin sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.
Rússland fer með neitunarvald í ráðinu þar sem landið er með fast sæti og var því ljóst að tillagan myndi aldrei ná fram að ganga. Fulltrúar ýmissa aðildarríkja létu í ljós óánægju sína við umræður um tillöguna;
„Við skulum hafa eitt á hreinu. Rússland, þið getið kosið gegn þessari tillögu, en þið getið ekki þaggað niður í okkur og þið getið ekki neitað sannleikanum, gildum okkar. Þið getið ekki neitað úkraínsku þjóðinni,“ sagði Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum við umræðurnar.
Tæplega 70 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna studdu tillöguna. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, þakkar aðildarríkjunum fyrir stuðninginn á Twitter.
„Sannleikurinn er með okkur, sigurinn verður okkar,“ skrifar forsetinn og bendir á að fjöldi stuðningsríkjanna sé fordæmalaus.
As 🇷🇺 continues to attack Kyiv, the draft resolution is co-sponsored by an unprecedented number of 🇺🇳 Member States. This proves: the world is with us, the truth is with us, the victory will be ours 🇺🇦!
— Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) February 25, 2022