Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að senda Úkraínumönnum vopn úr eigin vopnabirgðum til að aðstoða þá við að verjast árásum rússneska hersins.
Fyrr í dag varð stefnubreyting á því sem áður hefur gilt hjá þýskum stjórnvöldum þegar heimiluð var sending vopna sem framleidd eru í Þýskalandi, til Úkraínu frá Hollendingum.
Þýsk stjórnvöld hafa nú bætt um betur og tekið ákvörðun um að senda sjálf um þúsund vopn gegn skriðdrekum Rússa og fimm hundruð loftvarnarflaugar.
Á vef Der Spiegel er haft eftir Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, að vopnin verði send til Úkraínu eins fljótt og auðið er.
„Við þessar aðstæður er það skylda okkar að gera okkar besta til að hjálpa Úkraínu að verjast innrásarher Vladimírs Pútíns. Þýskaland stendur þétt við hlið Úkraínu,“ sagði Scholz þegar hann greindi blaðamönnum frá ákvörðuninni.