Tugþúsundir komu saman til stuðnings Úkraínu

AFP

Um þrjátíu þúsund manns komu saman í Tíblisi, höfuðborg Georgíu, á samstöðumótmælum með Úkraínu í kvöld í kjölfar innrásar Rússlands í landið.

Mótmælendur minntust m.a. mannskæðrar innrásar Rússlands í Georgíu árið 2008 og veifuðu bæði georgíska og úkraínska fánanum, auk þess sem þjóðsöngvar beggja ríkja voru sungnir. 

„Við finnum til með Úkraínu, eflaust meira en aðrar þjóðir, af því að við höfum séð frumstæða árásargirni Rússa á okkar landi,“ sagði leigubílstjórinn Niko Tvauri við blaðamann AFP á svæðinu. 

AFP

Salome Zurabishvili, forseti Georgíu, hefur lýst yfir samstöðu með Úkraínu og kallað eftir því að herlið Rússa verði dregið úr landinu.

Forsætisráðherrann Irakli Garibashvili var aftur á móti harðlega gagnrýndur í dag eftir að hafa tilkynnt ákvörðun sína um að taka ekki þátt í refsiaðgerðum evrópskra ríkja. 

AFP

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, þakkaði Georgíumönnum fyrir stuðninginn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert