Zelenskí afþakkar aðstoð við flótta

Zelenskí ávarpaði þjóð sína að kvöldi föstudags og sagðist myndu …
Zelenskí ávarpaði þjóð sína að kvöldi föstudags og sagðist myndu halda kyrru fyrir. AFP

Bandarísk yfirvöld eru reiðubúin að aðstoða Volodimír Zelenskí forseta Úkraínu við að yfirgefa Kænugarð til að forðast það að hann verði tekinn til fanga eða drepinn af rússnesku herliði, sem sífellt færist nær því að ná borginni á sitt vald.

Þetta herma heimildir Washington Post innan úr bandaríska og úkraínska stjórnkerfinu.

Fram til þessa hefur forsetinn þó neitað að fara. Á sama tíma og rússneski herinn hefur aukið árásir sínar á höfuðborgina hefur Zelenskí svarið að halda áfram í stjórnartaumana þaðan, þrátt fyrir að persónulega stafi honum af því mikil hætta.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, hefur óvinurinn merkt mig sem skotmark númer eitt, og fjölskyldu mína sem skotmark númer tvö,“ sagði forsetinn í ávarpi aðfaranótt föstudags eins og mbl.is greindi samstundis frá.

„Þeir vilja eyðileggja stjórnarfar Úkraínu með því að eyða þjóðarleiðtoganum.“

„Við erum öll hér“

Zelenskí hafði fyrr um kvöldið sent út myndskeið þar sem hann stóð ásamt forsætisráðherra landsins og fleiri háttsettum embættismönnum í Kænugarði.

„Við erum öll hér. Herinn okkar er hér. Borgarar í samfélaginu eru hér. Við erum öll hér að verja sjálfstæði okkar, landið okkar, og svona mun þetta halda áfram,“ sagði Zelenskí þar sem hann stóð fyrir utan forsetabústaðinn í borginni.

Forstjóri CIA flaug og fundaði með Zelenskí

Í fleiri vikur hefur Zelenskí fengið að heyra viðvaranir þessa efnis frá bandarískum embættismönnum.

Þegar forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, William J. Burns, flaug til Úkraínu í janúar, til fundar með Zelenskí um vaxandi hættu sem þá þótti steðja að landinu af hálfu Rússlands, spurði forsetinn hvort hann eða fjölskylda hans væru persónulega í hættu.

Er þetta haft eftir aðstoðarmanni forsetans, sem segir hann hafa efast um það að Rússar myndu reyna að myrða sig.

Hafa farið yfir öruggustu staðina

Burns mun ekki hafa deilt nákvæmum upplýsingum en á samt að hafa verið skýr um að Zelenskí þyrfti að taka sitt persónulega öryggi alvarlega.

Upplýsingar leyniþjónustunnar á þeim tíma gáfu til kynna að hópar rússneskra launmorðingja gætu þá þegar hafa komið sér fyrir í Kænugarði, löngu áður en herlið tók að drífa yfir landamærin.

Bandarískir embættismenn eru á undanförnum dögum sagðir hafa talað við Zelenskí um ýmiss konar öryggisatriði, þar á meðal öruggustu staðina fyrir forsetann til að koma sér fyrir á, til að halda stöðugleika í úkraínsku ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert