Rússneska ríkisflugfélagið Aeroflot hefur aflýst öllum flugferðum til Evrópu, í kjölfar þess að Evrópusambandið lokaði lofthelgi sinni fyrir rússneskum flugvélum eftir innrás Rússa í Úkraínu.
„Aeroflot aflýsir öllum flugferðum í evrópska leiðakerfinu frá 28. febrúar 2022 og þar til annað verður tilkynnt,“ segir á vef félagsins.
Í lofthelgisbanni Evrópu felst bann við flugi allra rússneskra véla, þar á meðal einkaflugvéla.
Þegar höfðu mörg aðildarríkjanna 27 tilkynnt eigin lokanir á lofthelgi gagnvart rússneskum flugferðum.
Rússland hefur svarað í sömu mynt og bannað flugferðir frá löndum á borð við Bretland, Lettland, Litháen, Eistland, Slóveníu, Búlgaríu, Pólland og Tékkland.