Jón Gunnarsson innanríkisráðherra segist hafa fordæmt „viðbjóðslegan stríðsrekstur Rússlands“ og ítrekað stuðning Íslands við Úkraínu, á fundi með öðrum ráðherrum dóms- og innanríkismála í ESB og á Schengen-svæðinu í Brussel í dag.
Ráðherrarnir ræddu þar mannúðaraðstoð, flóttamannamál, vegabréfsáritanamál og öryggi ytri landamæra Schengen-svæðisins.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að Jón hafi sótt fundinn fyrir Íslands hönd og hann hafi fordæmt aðgerðir Rússlands og ítrekað stuðning Íslands við Úkraínu.
Enn fremur kemur fram að ráðherrarnir hafi allir sem einn fordæmt aðgerðir Rússa og ítrekað stuðning og samábyrgð með Úkraínu.
Sömuleiðis segir að Jón Gunnarsson hafi upplýst um veitta mannúðaraðstoð íslenskra stjórnvalda í formi fjárframlags.
Þá tilkynnti ráðherrann einnig að Ísland myndi fylgja fordæmi Evrópusambandsins í vegabréfsáritanamálum og rifta áritanasamningi við rússnesk yfirvöld.